Örn ólst upp hjá strangtrúaðri móður og svarar fyrir sig: „Svona virkar heilaþvottur“

„Það má brosa að þess­ari ein­feldni, en svona virk­ar heilaþvott­ur,“ segir Örn Svavarsson, stofnandi Heilsuhússins og fyrrverandi vottur Jehóva, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.

Þar svarar Örn grein sem Jörgen Pedersen, stjórnarformaður trúfélags Votta Jehóva í Noregi, skrifaði og fékk birta í Morgunblaðinu á dögunum. Í greininni sagði Jörgen meðal annars að fjölmiðlar á Íslandi hefðu ítrekað borið fram alvarlegar og ærumeiðandi ásakanir á hendur Vottum Jehóva.

„Þau ósann­indi sem and­vara­laus­ir fjöl­miðlar enduróma eiga upp­tök sín hjá fólki sem seg­ist hafa til­heyrt söfnuðinum. Þess­ir ein­stak­ling­ar hafa ekki alltaf það mark­mið að fara satt og rétt með staðreynd­ir,“ sagði Jörgen meðal annars.

Órökstuddar dylgjur

Örn segir að í grein sinni haldi Jörgen fram órökstuddum dylgjum um að út­skúfað fólk úr söfnuðinum ljúgi til um kenn­ing­ar safnaðar­ins og sam­skipti sín við hann.

„Þar sem ég tók þátt í umræðunni um Vott­ana í kjöl­far sjón­varps­viðtala á síðasta ári og tjáði mig um mína reynslu, mun ég vera í hópi þeirra sem stjórn­ar­formaður norskra Votta Jehóva dylgjar um. Því vil ég árétta að ég var al­inn upp sem vott­ur Jehóva frá blautu barns­beini af mjög trúheitri móður. Fyr­ir ákafa hvatn­ingu henn­ar og frek­ari örvun annarra votta lét ég skír­ast aðeins tíu ára gam­all, enda höndluðum við sann­leik­ann og veg­ur framtíðar blasti ljós­lif­andi við okk­ur, Harmageddon og ei­líf jarðnesk para­dís þar hand­an við,“ segir Örn meðal annars og stiklar svo á stóru um þær kenningar sem lifað var eftir og ítrekaðar heimsendaspár.

Hann gagnrýnir þau orð Jörgens í greininni þess efnis að vottar Jehóva beri mikla virðingu fyrir lífinu og mannlegri reisn og að trúarkenningarkenningar þeirra einkennist af ríkulegu valfrelsi og frelsti til að taka eigin ákvarðanir.

„...nú segi ég úps!“

„Og nú segi ég úps! Jafnt ég sjálf­ur sem og fjöldi fyrr­ver­andi votta sem ég þekki hafa svo sann­ar­lega ekki notið þessa „ríku­lega val­frels­is“, held­ur hef­ur okk­ur verið út­skúfað. Vott­ur sem miss­ir trúna á guðinn Jehóva og fé­lag hans, eða vel­ur að lifa sínu lífi með öðrum hætti en fé­lagið býður, er rek­inn. Fólk er smánað. Útskúf­un þar sem öllu þess fólki, æsku­vin­um jafnt sem frænd­fólki, nán­ustu fjöl­skyldu, jafn­vel systkin­um, for­eldr­um og börn­um er bannað að hafa við það nokk­urt sam­neyti, er and­styggi­legt form refs­ing­ar, and­legt of­beldi í sinni verstu mynd. Þegar heilt sam­fé­lag tek­ur sig sam­an um að leggja fæð á einn ein­stak­ling, þegar heill söfnuður fær fyr­ir­mæli frá sín­um and­legu leiðtog­um um að hunsa einn úr sín­um hópi með öllu, virða hann ekki viðlits frek­ar en að hann hefði aldrei verið til, þá eru slík­ar öfga­full­ar aðgerðir einelti á hæsta stigi og hróp­leg brot á mann­rétt­ind­um.“

Örn heldur áfram og segir að þetta sé sérdeilis nýstárleg „virðing fyrir mannlegri reisn“ og „ríkulegu valfrelsi og frelsi til að taka eigin ákvarðanir“.

„Þú mátt sann­ar­lega taka þína eig­in ákvörðun, en sé hún ekki okk­ur að skapi, þá verður þú rek­inn og þér út­skúfað úr okk­ar sam­fé­lagi. Talsmaður­inn norski tal­ar um að verið sé að „að spilla orðstír trú­ar­legra minni­hluta­hópa með for­dóm­um og ósann­ind­um“. Ég leyfi mér að full­yrða að það sem ég set hér niður á blað sé öllu nær sann­leik­an­um, svona eins og við þekkj­um hann í dag­legu lífi, held­ur en Harmageddon-spá­dóm­ur­inn sem hinn am­er­íski trú­flokk­ur fékk meld­ingu um frá guðinum Jehóva og taldi okk­ur trú um að riði yfir heim­inn árið 1975. Þetta var okk­ar bjarg­fasta trú á ár­un­um áður en spá­dóm­ur­inn brást. Það má brosa að þess­ari ein­feldni, en svona virk­ar heilaþvott­ur.“

Örn segist að lokum taka heilshugar undir eftirfarandi orð Jörgens í greininni:

„Óskandi er að Ísland beiti sér fyr­ir því að all­ir lands­menn fái að njóta lýðræðis, umb­urðarlynd­is og virðing­ar.“