Logi Einarsson lét um helgina af störfum sem formaður Samfylkingarinnar. Kristrún Frostadóttir tekur nú við keflinu en hún var ein í framboði til formanns eftir að Logi tilkynnti í sumar að hann hygðist láta af formennsku í flokknum.
Logi er þekktur húmoristi og hann sló á létta strengi í færslu á Facebook-síðu sinni á laugardag, rétt eftir að hann lét af formennsku í Samfylkingunni.
„Eitt af því sem ég harma mest er að foreldrar mínir hafi aldrei látið taka ungbarnamynd af mér liggjandi á gæru eins og vinsælt var fyrir hálfri öld. Þegar ég sá eina slíka á sjónvarpsstöðinni Hringbraut stóðst ég ekki freistinguna og bað Freyju að smella einni af mér,“ sagði Logi og átti þar við Freyju Steingrímsdóttur, pólitískan ráðgjafa sinn.
„Hún bannaði mér þó að birta hana og sagði að hún sæmdi ekki formanni í stjórnmálaflokki.
Nú er ég það ekki lengur og því læt ég hana flakka. Kærar þakkir Ásgeir, Freyja og Andri fyrir að hjálpina og koma fyrir mig sönsum annað slagið!“