Myndband af hrottalegri hópárás í umferð: „Versta tilfinning sem ég hef upplifað í áratugi,“ segir faðirinn

Myndband sem sýnir hrottalega líkamsárás sex manna á einn gengur nú manna á milli á netinu. Fréttavefir Vísis og DV fjölluðu um tilvist myndbandsins í morgun en á því má meðal annars sjá þegar árásarmennirnir spörkuðu í fórnarlambið þar sem það lá hjálparvana í grasinu á Austurvelli aðfaranótt sunnudags.

Maðurinn sem fyrir árásinni varð slasast töluvert í árásinni, en í frétt Vísis kemur fram að hann hafi kinnbeinsbrotnað í árásinni og hafi þurft að bíða í átta klukkustundir á bráðamóttöku eftir að komast í myndatöku. Í frétt Vísis kemur fram að árásin verði kærð til lögreglu.

Fréttavefur DV ræddi við föður drengsins sem sagðist ekki enn hafa getað horft á myndbandið. Árásin virðist hafa verið með öllu tilefnislaus og segir í frétt DV að fórnarlambið, sem er á þrítugsaldri, hafi verið á rölti um miðbæinn ásamt félaga sínum og tveimur stúlkum þegar þau veittu því eftirtekt að sex manna hópur ungra manna gekk á eftir þeim.

Í frétt DV kemur fram að hópurinn hafi ráðist til atlögu við annan manninn og hinn hafi reynt að stilla til friðar. Það hafi ekki gengið betur en svo að mennirnir sneru sér að honum og gengu í skrokk á honum fyrir framan þinghúsið.

Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir við Vísi að svo virðist sem einhverskonar ofbeldisalda gangi yfir landið.

Faðir drengsins tjáir sig um árásina í samtali við DV.

„Það er mjög skrítið að lenda í þessu satt að segja. Mér leið þannig í gær að hefði ég náð á einhverjum þeirra eða jafnvel öllum þá hefðu þeir aldrei þurft að kemba hærurnar aftur. Versta tilfinning sem ég hef upplifað í áratugi,“ segir faðirinn.

Nánar er fjallað um málið á vef Vísis og DV.