Mynd dagsins: Svona losnar Guðmundur Franklín við geitungana

Guðmundur Franklín Jónsson, hagfræðingur og stofnandi Frjálslynda lýðræðisflokksins, þykir úrræðagóður með eindæmum.

Mynd sem hann birti á Facebook-síðu sinni á dögunum hefur slegið í gegn, en um er að ræða mynd af býsna nýstárlegri geitungagildru. Hvort gildran virki skal ósagt látið en hugmyndin er að minnsta kosti ágæt. Guðmundur útskýrir svo í stuttu máli hvernig gildran virkar.

„Þetta mun vera geitungagildra. Hún virkar á þann hátt að geitungurinn heldur að saltið sé sykur og fær sér smá að borða, verður þá þyrstur og ætlar að fá sér vatn til að svala þorstanum en þá er náttúrulega brennivín í tappanum en ekki vatn, þá gerist hann svo drukkinn að hann dettur um greinina og rekur hausinn í steininn og dauðrotast. Eftir það getur þú tekið hann í burtu. Þetta er bæði tímafrek en skemmtileg lausn á geitunga vanda. Mæli ekki með henni,“ segir Guðmundur Franklín og bætir við að hann hafi fengið myndina senda frá vini sem er ekki í pólitík.

Óhætt er að segja að myndin hafi fallið vel í kramið hjá fylgjendum Guðmundar og kátínu margra.