Mynd dagsins: Óvæntur gestur í vefmyndavélinni klukkan 05:07

Hinar ýmsu vefmyndavélar sem settar hafa verið upp vegna eldgossins í Geldingadölum á Reykjanesi geta verið til margra hluta nytsamlegar.

Eins og frægt er orðið var settur á laggirnar hópur, Fávitavarpið í Geldingahrauni, þar sem myndir eru birtar af þeim sem fara fyrir framan vefmyndavél RÚV og skyggja þannig á útsýnið að sjálfu gosinu.

Ein slík mynd rataði í hópinn í gærmorgun en myndin, sem er frá vefmyndavél mbl.is, var tekin klukkan 05:07 í gærmorgun. Á henni má sjá litla svarta skuggaveru á hlaupum fyrir framan myndavélina.

Eins og glöggir lesendur hafa ef til vill áttað sig á var um að ræða ref sem þarna var á vappi – væntanlega í einhverjum allt öðrum erindagjörðum en að skoða eldgos. Myndin vakti talsverða athygli, enda skemmtileg, og voru athugasemdirnar ekki síður skemmtilegar.

„Athyglissýkin spyr ekki um tegund,“ sagði til dæmis í einni. Myndina af rebba má sjá hér að neðan: