Fyrsta tölublað Vogue í Skandinavíu er nú komið út en athygli vekur að á forsíðu blaðsins megi finna íslenskan hest í forgrunni ásamt loftslagssinnanum unga Gretu Thunberg.
Hesturinn sem um ræðir ber nafnið Gandalf, eða Gandálfur eins og það mætti þýða á íslensku úr Hringadróttinssögu, og er forsíðumyndinni ætlað að sýna samspil mannsins við náttúru- og dýralífið.
„Ástin og virðingin fyrir náttúru og dýralífinu er eitthvað sem sameinar öll fimm Norðurlöndin,“ segir Martina Bonnier, ritstjóri blaðsins, um útgáfuna en í fyrsta blaðinu er lögð megináhersla á náttúru.
Myndin var tekin af sænsku hjónunum Matthias og Iris Alexandrc Klum í skóglendi við Stokkhólm en hægt er að sjá forsíðuna hér fyrir neðan.

Mynd/Vogue/Alexandrov Klum