Mynd dagsins að þessu sinni er úr tímaritinu Stormi sem birtist í aprílmánuði árið 1933. Blaðið var þá með umfjöllun um áfengislagafrumvarp sem lá fyrir Alþingi á sínum tíma – frumvarp sem mjög skiptar skoðanir voru um.
Af því tilefni tók blaðið saman lista yfir mismunandi stig, sem menn komast á, þegar þeir neyta áfengis. „Er skrá þessi samin af þrem mönnum, sem kunna góð skil á þessum hlutum og hafa nokkra persónulega reynslu, en það skal tekið fram, að hann er saminn í flýgi, og má því vafalaust „complettera“ hann,“ segir í grein blaðsins.
Óhætt er að segja að enn þann dag í dag séu mörg orð á listanum í notkun á meðan önnur hafa fallið í gleymskunnar dá. Þarna má finna kunnugleg orð eins og blekaður, hívaður og pöddufullur. Orð eins og Moldfullur, svinkaður og stjörnufullur eru þó minna áberandi.
Fyrst var bent á þennan skemmtilega lista í Facebook-hópnum Hópurinn þar sem öll eru miðaldra.
