Einn af fylgifiskum þess að búa í þéttbýli á Íslandi er náið samlífi með mávunum sem eru ekki beint allra. Þeir eiga það til að hópast saman, vera með læti og þá eru dæmi þess að þeir séu aðgangsharðir við fólk – sérstaklega þegar glyttir í eitthvað ætilegt.
Á Twitter hafa nokkuð áhugaverðar umræður átt sér stað um máva og þá tilfinningu fjölmargra að hegðun þeirra hafi breyst til hins verra undanfarin misseri. Ýmsum kenningum er varpað fram, til dæmis litlu æti fyrir fuglana og fuglaflensu.
„Ég get ekki útskýrt það nákvæmlega, en mávar eru búnir að vera að haga sér eitthvað undarlega, allavega síðan ég kom til landsins. Hefur einhver tekið eftir því líka og/eða veit af hverju,“ spyr málshefjandi býsna fjörugrar umræðu, Kristjana Jónsdóttir, á Twitter.
Ef marka má umræður í þræðinum kannast margir við þetta og eru sumar lýsingarnar hálf ótrúlegar, þó ekki sé efast um sannleiksgildi þeirra.
„Já þeir eru brjálaðir! Ég sá einn reyna taka lítinn kött sem rétt nàði að forða sér undir bíl. Svo koma þeir alltaf saman margir á grasinu fyrir utan hjà mér á kvöldin,“ segir fjölmiðlakonan Viktoría Hermannsdóttir. Fleiri taka í svipaðan streng.
„Já, hef tekið eftir þeim safnast saman á óvenjulegum stöðum, voru með mjög mikil læti áðan á tíma sem ég hef ekki tekið eftir þeim hafa hátt hér nálægt áður,“ segir í einni athugasemd.
„Ég var með afmæli fyrir strákinn minn úti í garði um daginn. Svo erum við að borða kvöldmat og ég var ekki búin að ganga frá kökunni úti á borði í garðinum og allt í einu sjáum við út um stofugluggann risa máv vera að gæða sér á kökunni. Inni í miðju íbúðahverfi,“ segir í annarri athugasemd.
Enn annar segir: „Sammála! Allt í einu fullt af mávum í Grafarvogi, hef ekki tekið eftir svona mörgum hérna áður og er búin að búa hérna allt mitt líf.“
„Ég hef tekið eftir því. Mávur sótti sérstaklega í vinkonu mína - eins og hann væri að reyna að lenda á henni. ítrekað. Líka eftir að við höfðum fjarlægt hluti sem gætu virst honum sem girnileg fæða,“ segir í annarri athugasemd.
Garðar Gunnlaugsson, fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu, varð vitni að óhugnanlegu atviki að eigin sögn þar sem mávar komu við sögu. Hann segir á sinni Twitter-síðu:
„Varð vitni af 2 mávum ráðast ítrekað á hlaupara við Lágmúlann í gær og í dag voru nokkrir mávar að elta hjólreiðakonu á Akranesi.. it’s happening!“
Katrín Atladóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi, deilir færslu Garðars og segir: „Fuglar eru ógeð og ég óttast ekkert meira. Allt í einu er húsið mitt komið undir einhverja flugleið máva og ég sé þá endalaust útum gluggann og skil ekkert.“
Ég get ekki útskýrt það nákvæmlega, en mávar eru búnir að vera að haga sér eitthvað undarlega, allavega síðan ég kom til landsins. Hefur einhver tekið eftir því líka og/eða veit af hverju? #fuglatwitter
— Kristjana Jónsdóttir (@Kristjanaej) August 9, 2022
Varð vitni af 2 mávum ráðast ítrekað á hlaupara við Lágmúlann í gær og í dag voru nokkrir mávar að elta hjólreiðakonu á Akranesi.. it’s happening! pic.twitter.com/is3t2sBe12
— Gardar Gunnlaugsson (@Gunnlaugsson9) August 10, 2022