Magnús Norðdahl, flugstjóri og fimmfaldur Íslandsmeistari í listflugi, er látinn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjölskyldu hans, en þar segir að hann hafi látist á heimili sínu þann áttunda september, 94 ára að aldri.
Hann fæddist þann 20. febrúar 1928. Foreldrar hans voru Guðmundur Norðdahl trésmiður og Guðrún Pálsdóttir húsmóðir.
Eiginkona Magnúar var María Sigurðardóttir Norðdahl heildsali en hún lést árið 2017.
Börn Magnúsar eru Sigurður, Guðrún, Guðmundur, Magnús Steinarr og Jóna María, og eru barnabörn 10, og barnabarnabörnin 8.
„Óhætt er að segja að hann hafi verið frumkvöðull í listflugi á Íslandi og var hann öðrum flugmönnum hvatning til að stunda listflug og alltaf tilbúinn að miðla af reynslu sinni og kunnáttu sem hann bjó yfir í miklu mæli. Hann keppti oft í listflugi og varð Íslandsmeistari fimm sinnum, fyrst árið 1996 og síðast árið 2001. Sýndi hann oft listflug á flugdeginum á Reykjavíkurflugvelli og síðast árið 2017 þegar hann var 89 ára gamall. Hann flaug listflug til ársins 2020 þegar hann var orðinn 92 ára gamall. Flugið var hans eina áhugamál því í flugvél var hann frjáls eins og fuglinn eins og var svo oft haft eftir honum.“ segir í tilkynningu fjölskyldunnar.