Lögregla með nýjar upplýsingar vegna hnífaárásarinnar í Bankastræti í gærkvöldi

Fjórir hafa verið handteknir vegna hnífaárásarinnar á Bankastræti Club í gærkvöldi, samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sem barst rétt í þessu.

Þrír karlar voru fluttir á slysadeild eftir árásina en mennirnir, sem eru í kringum tvítugt, voru allir með stungusár.

Sjá einnig: Birgitta Líf tjáir sig um árásina í gærkvöldi: „Viðkomandi slösuðust alvarlega“

„Tilkynning um málið barst lögreglu kl. 23.33 og hélt hún strax á vettvang, en fyrir liggur að það var hópur manna sem réðst inn á skemmtistaðinn og að þremenningunum, sem þar voru staddir í herbergi. Árásarmennirnir voru dökkklæddir og með grímur, en þeir yfirgáfu skemmtistaðinn um leið og árásin var yfirstaðin. Talið er að þeir hafi verið innandyra í mjög skamman tíma, en leit að þeim hófst strax eftir að lögreglan kom á vettvang. Tugir lögreglumanna hafa komið að rannsókn málsins frá því í gærkvöld og nótt og hafa verið framkvæmdar allnokkrar húsleitir í þágu hennar. Fjórir hafa verið handteknir vegna málsins þegar þetta er ritað.“

Í tilkynningu lögreglu kemur fram að rannsókn málsins sé í forgangi hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Við aðgerðirnar í gærkvöld og nótt naut hún aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra.

„Rannsóknin beinist m.a. að því hvort árásin tengist uppgjöri eða hefndaraðgerðum, en á þessu stigi er of snemmt að fullyrða um slíkt. Svo virðist sem málsaðilar séu flestir Íslendingar, en það á eftir að skýrast frekar. Lögreglan vopnaðist vegna aðgerðanna í gærkvöld og nótt, en um mjög alvarlega árás er að ræða. Frekari upplýsingar verða sendar fjölmiðlum eftir því sem rannsókn málsins vindur fram.“

Lögreglan minnir á hjálparsíma Rauða krossins 1717 og netspjall 1717.is