Leó Kristjánsson fæddist á Ísafirði 26. júlí 1943. Hann lést á Landspítala – Háskólasjúkrahúsi 13. mars 2020. Leó var jarðvísindamaður og á heimsvísu varð Leó einn af helstu sérfræðingum í sínum fræðum og virtur eftir því í hópi jarðvísindafólks.
Leó kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni, Elínu Ólafsdóttur. Eignuðust þau tvö börn, Kristján og Margréti.
Leó útskrifaðist með BS-gráðu í eðlisfræði frá Edinborgarháskóla 1966 og MS-gráðu í jarðeðlisfræði frá Háskólanum í Newcastle upon Tyne 1967. Hann lauk doktorsprófi í jarðeðlisfræði við Memorial-háskóla í St. John's í Kanada árið 1973.
Leó starfaði lengst af við grunnrannsóknir í jarðeðlisfræði hjá Raunvísindastofnun Háskólans og Jarðvísinda-stofnun Háskólans, auk þess að sinna kennslu í almennri eðlisfræði, jarðeðlisfræði, varmafræði, aflfræði, rafsegulfræði og fleiri greinum við Háskóla Íslands yfir nær hálfrar aldar tímabil.
Hér má finna heimasíðu Leós þar sem hin ýmsu verk er að finna
Leó var frumkvöðull á sviði bergsegulmælinga á íslenskum hraunlögum og segulsviðsmælinga á Íslandi og landgrunninu. Hann lagði grundvöll að aldursflokkun íslenska bergstaflans og var meðal virtustu vísindamanna á sviði bergsegulmælinga og rannsókna á breytingum á jarðsegulsviði jarðar undanfarin 15 milljón ár.
Fyrir framlag sitt var hann gerður að heiðurs-félaga í American Geophysical Union árið 2002 og er hann eini Íslendingurinn sem hlotið hefur þann heiður.
Leó vann jafnframt að sögu rannsókna á íslenskum steindum og bergtegundum, einkum silfurbergi og notkun þess í mælitækjum fyrr á öldum.
Leó var höfundur fjölda greina í alþjóðlegum vísindaritum, auk þess sem hann skrifaði um sögu vísindarannsókna, útgáfu og kennslu í jarðvísindum og fleiri raungreinum á Íslandi. Eftir hann liggja einnig fjölmargar alþýðlegar greinar, skýrslur, ritdómar, ritskrár, og greinar um kennslumál.

Á starfsferli sínum gegndi Leó fjölmörgum trúnaðar-störfum innan Háskóla Íslands, Raunvísindastofnunar Háskólans, Rannsóknaráðs ríkisins, Vísinda- og tækniráðs, Jarðfræðafélags Íslands, Vísindafélags Íslendinga, Vísindanefndar NATO, Vísinda- og tækniþróunarnefndar ESB o.fl., auk ýmissa ritstjórnarstarfa.
Útför Leós fór fram í kyrrþey vegna áhrifa COVID-19 og þeirra sérstöku aðstæðna sem nú ríkja í samfélaginu
Fjölmargir minnast Leós bæði í Morgunblaðinu og á samfélagsmiðlum.
Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands minnist Leós í löngu máli og rekur feril hans. Þá segir Jón Atli:
„Fyrir hönd Háskóla Íslands þakka ég störf Leós Kristjánssonar í þágu skólans og votta aðstandendum hans innilega samúð.“
Kristján sonur Leós segir:
„Hann var einstakur maður að svo mörgu leyti og eftir nær 50 starf innan veggja Háskóla Íslands hefur hann snert líf margra.
Komið hefur fyrir að fólk sem ég þekki ekki hafi stokkið á mig á götu og faðmað mig fyrir það eitt að vera skyldur honum.
Góða ferð elsku besti pabbi, þín verður sárt saknað.“
Kristján Pétur tvíburabróðir Leós skrifar í Morgunblaðið:
„Leó var miklum námsgáfum gæddur og var dúx bekkjar síns öll skólaár. Á stúdentsprófi í MA 1962 fékk hann hæstu meðaleinkunn sem gefin hafði verið í menntaskólum landsins. Hann varð einn fyrstur til að fá „stóra styrkinn“ svokallaða, ríflegan námsstyrk fyrir besta námsfólk landsins.
Leó var fyrri okkar tvíburanna inn í þennan heim og hann varð á undan yfir í þann næsta. Seinna verður sagt á ný, þá fyrir handan: „Það kemur víst einn til.“ Þangað til lifi ég í minningunni um einstakan bróður.“

Kveðja frá Raunvísindastofnun Háskólans - Hafliði Pétur Gíslason, formaður stjórnar skrifar:
Sumir samferðamenn marka dýpri spor en aðrir. Leó Kristjánsson var einn þeirra, setti sterkan svip á Raunvísindastofnun Háskólans í næstum hálfa öld með störfum sínum og nærveru. Leó var öndvegisvísindamaður, skarpur og klár, ósérhlífinn í óteljandi rannsóknarferðum sínum í felti.
Á rannsóknasviði sínu, bergsegul- og segulsviðsmælingum á Íslandi og breytingum á jarðsegulsviði jarðar síðustu 15 milljón árin, var hann meðal virtustu vísindamanna í heimi og var gerður að heiðursfélaga í American Geophysical Union árið 2002 fyrir vikið, einn Íslendinga. Leó lagði einnig stund á sögu vísindarannsókna, einkum hina einstæðu eiginleika íslensks silfurbergs og þátt þess í að auka þekkingu á eðli ljóss og víxlverkunum þess og efnisheimsins.
Hann birti einn og með öðrum fjölda vísindagreina í ritrýndum alþjóðlegum tímaritum, hélt víða erindi á ráðstefnum, en var einnig sískrifandi alþýðlegar greinar um ýmis hugðarefni sín, ekki síst kennslu og útgáfu í jarðvísindum og fleiri raungreinum á Íslandi. Á starfsferli sínum gegndi Leó fjölmörgum trúnaðarstörfum innan Háskólans og Raunvísindastofnunar auk ýmissa starfa fyrir innlent og erlent vísindasamfélag.
Fyrir hönd stjórnar og starfsmanna Raunvísindastofnunar Háskólans þakka ég Leó Kristjánssyni langa og farsæla samferð og færi fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur.
Helgi Björnsson skrifar:
„Íslendingar eru í þakkarskuld við Leó Kristjánsson. Fyrir skerf hans til vísinda, það gagn, sem hann vann með rannsóknum og háskólakennslu, opinberum fyrirlestrum og fræðigreinum fyrir almenning. Lengi mun orðspor hans lifa í ritverkum, nemendum og samstarfsmönnum. Okkur, sem þekktum hann vel, finnst samt mest til um, hvern mann hann hafði að geyma.“
Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur segir:
Með fráfalli Leós Kristjánssonar lýkur merkum kafla í sögu jarðvísinda á Íslandi. Hann hóf starfsferil sinn á upphafsárum mikilla byltinga í hugmyndaheimi jarðvísindanna. Kenningar um stórfelldar hreyfingar jarðskorpunnar voru að ryðja sér til rúms, kenningar sem nú ganga undir heitinu flekakenningin og mynda ramma utan um flestar hugmyndir í jarðvísindum nútímans.
Leó valdi sér viðfangsefni á sviði fornsegulmælinga, sem lagði til eina af meginstoðum flekakenningarinnar. Þar átti hann samstarf við helstu vísindamenn heimsins og lagði sín lóð á vogarskálarnar.
Hann var óþreytandi við mælingar á segulmögnun í íslensku basalti og mældi mörg snið í gegnum jarðlagastafla Íslands. Með mælingunum má annars vegar ráða í sögu segulsviðs jarðarinnar síðustu 15 milljónir ára, og hins vegar sögu Íslands á sama tíma.
Rannsóknir Leós höfðu því bæði ríkulega alþjóðlega skírskotun og staðbundna þýðingu fyrir rannsóknir á jarðfræði Íslands. Fyrir framlag sitt til þessara rannsókna var Leó kjörinn heiðursfélagi í Jarðeðlisfræðisambandi Ameríku.
Leó hafði líka ómetanleg áhrif á samfélag og starfsemi jarðvísindamanna á Íslandi. Hann var einn af fyrstu mönnum hér á landi til að mennta sig í jarðeðlisfræði og ljúka hæstu prófum á sínu sviði. Hann var því ómetanleg fyrirmynd okkur hinum sem á eftir fylgdu. Jarðfræðafélag Íslands var nýstofnað og athygli jarðvísindamanna heimsins hafði beinst að Íslandi. Það var því mikill hugur í mönnum að láta að sér kveða.
Leó var góður vinnufélagi og ekki spillti fyrir að hann var mikill húmoristi. Hann sá ævinlega óvænta og oft spaugilega hlið á málum. Hans er sárt saknað á gamla vinnustaðnum.“

Magnús Tumi Guðmundsson jarðfræðingur skrifar:
Leiðir okkar Leós lágu saman í fyrsta sinn í byrjun september fyrir 38 árum. Í hópi nýnema við Háskóla Íslands vorum við nokkur að byrja í stærð-, eðlis- eða jarðeðlisfræði. Allt var nýtt fyrir okkur. Nýr skóli, öðruvísi kennsluaðferðir, nýir kennarar. Og við haldin kvíðablandinni eftirvæntingu. Fyrsti dæmatíminn í eðlisfræði var í kennslustofu í VR-2. Þar var þessi vörpulegi og svipsterki maður mættur til að fara yfir tilraunir okkar til að leysa dæmin sem fyrir voru sett og leiða okkur í rétta átt. Og það tókst honum. Með samblandi af innsæi, hnyttni og nákvæmni tókst Leó að gæða efnið lífi með þeim hætti að fáir hefðu leikið það eftir.
Sú leiðsögn sem þarna hófst átti eftir að standa í áratugi. Alltaf var hægt að leita til Leós og það var alltaf gagn af þeim fundum. Hollráðari maður var vandfundinn enda glöggskyggn og víðfróður með afbrigðum.
Á heimsvísu varð Leó varð einn af helstu sérfræðingum í sínum fræðum og virtur eftir því í hópi jarðvísindafólks. Allt frá upphafi birti Leó niðurstöður sínar í virtum alþjóðlegum tímaritum. Þar skapaði hann fordæmi sem átti stóran þátt í að gera jarðvísindin við Raunvísindastofnun að sterkri einingu sem naut virðingar á alþjóðavettvangi. Á þessari arfleifð byggir Jarðvísindastofnun Háskólans í dag.
Sem samstarfsmaður var Leó skemmtilegur félagi með glöggt auga fyrir sniðugum vinklum á hvaðeina sem upp á kom. Hann lauk verkefnum hratt og vel og meðan Leó beið eftir að aðrir kláruðu sinn hlut nýtti hann tímann vel. Hann gegndi stjórnunarstörfum af ýmsu tagi, ritstjórnarstörfum, skrifaði alþýðlegar fræðslugreinar og beitti sér fyrir nýjungum í tilraunakennslu.
Sá eðlislægi dugnaður sem var Leó í blóð borinn kom m.a. fram í því að hann var virkur fram á síðasta dag. Á hann hafði herjað illvígur sjúkdómur og það sá á honum. En síðustu vikurnar á spítalanum nýtti hann tímann til að lesa prófarkir og ganga fá málum. Það er sárt að sjá á bak þessum öðlingi og læriföður. Missir fjölskyldunnar er þó mestur og ég votta Elínu, Kristjáni, Margréti og fjölskyldum þeirra samúð mína.