Lára horfði á manninn brosa og velti fyrir sér hvort hann væri kannski ekki allur þar sem hann væri séður

Lára G. Sigurðardóttir, læknir og einn vinsælasti pistlahöfundur þjóðarinnar, segist vera orðin tortryggnari gagnvart karlmönnum en áður. Lára skrifar bakþanka Fréttablaðsins í dag þar sem hún rifjar upp tvær ferðir til Parísar með nokkurra ára millibili.

„Má ég færa ykkur eitthvað, svo sem kampavín eða kakó?“ sagði hótelþjónninn á heimilislega hótelinu þar sem ég gisti nýverið ásamt góðum konum í París. Ég mundi vel eftir þjóninum. Fyrir fjórum árum dvaldi ég á sama hóteli ásamt vinkonu og á kvöldin færði hann okkur heitt kakó upp á herbergi. Þá vorum við himinlifandi með þjónustuna,“ segir Lára sem tekur fram að nú hafi tilfinningin verið önnur.

„Þar sem ég sat í sófanum og horfði á manninn spjalla við okkur með brosinu sínu breiða byrjaði ég að ímynda mér að hann væri kannski ekki allur þar sem hann væri séður. Til að gera söguna enn dramatískari sá ég hann orðið fyrir mér sem hótelþjóninn Norman Bates í sturtuatriðinu fræga úr hrollvekjunni Psycho,“ segir Lára sem velti fyrir sér hvernig það megi vera að upplifun hennar á manninum var allt önnur en fyrir fjórum árum.

„Skyldi aftakaveður á internetinu eiga sinn þátt? Það má vart opna vefmiðla án þess að sjá dómstól götunnar draga ný nöfn fram í dagsljósið með skafrenningi af ásökunum um ósmekklegt athæfi. Með þessu er ég ekki að lýsa yfir sakleysi neins og vissulega er eðlilegt að við vitum af brotamönnum sem ganga lausir. En „ég-líka“ byltingin hefur því miður enn ekki dregið úr ofbeldi gegn konum þótt hún hafi opnað augu okkar fyrir misrétti og ofríki. Við þurfum áhrifaríkari nálganir,“ segir Lára sem endar pistil sinn á þessum orðum:

„Með byltingunni er ég líka orðin tortryggnari gagnvart karlmönnum og ég velti fyrir mér hvort stundum sé of langt gengið. Mig langar ekki að vera sú manneskja sem dæmir alla karlmenn fyrir fram sem níðinga. Það eru nefnilega flestir góðir, mögulega líka hótelþjónninn … sem hefði örugglega látið vaða þarna fyrir fjórum árum síðan, þegar við vorum bara tvær en ekki fjórar, væri hann vondur.“