Kristín Sif brotnaði niður í beinni útsendingu: „Ég vissi að þetta myndi gerast“

Útvarpskonan Kristín Sif Björgvinsdóttir átti erfitt með að halda aftur af tárunum í beinni útsendingu í útvarpsþættinum Ísland vaknar á K100 í vikunni.

Í þættinum var Hrönn Sigurðardóttir, afrekskona í ólympíufitness, útnefnd manneskja vikunnar en Hrönn glímir við fjórða stigs krabbamein og þarf að sækja meðferðir erlendis vegna þess.

Fjallað er um þetta á vef K100 en í þættinum sagði Kristín Sif að þeir sem þekkja Hrönn viti að hún er framúrskarandi manneskja. „Hún er ein af okkar allra bestu konum í fitness. Hún er ein af þremur sem hafa orðið atvinnumenn í þessu sporti á Íslandi,“ sagði hún meðal annars.

Kristín vakti athygli á styrktarreikningi sem hefur verið stofnaður fyrir Hrönn en hann er á nafni Heiðrúnar Sigurðardóttur, systur Hrannar.

Kristín sagði Hrönn halda í húmorinn þrátt fyrir þá erfiðleika sem blasa við. „Hún er svo ógeðslega þrautseig og ógeðslega mikill töffari að hún er klárlega manneskja vikunnar hjá mér,“ sagði Kristín sem brotnaði niður. „Ég vissi að þetta myndi gerast, ég vissi að ég myndi fara að gráta.“

Nánar á vef K100 en þar má einnig nálgast upplýsingar um styrktarreikning sem stofnaður hefur verið.