Kolbeinn Tumi fær samkeppni um ástir Selmu úr óvæntri átt

Kolbeinn Tumi Daðason, fréttastjóri Vísis, er kominn með samkeppni um hug og hjarta kærustu sinnar, Selmu Björnsdóttur. Að minnsta kosti ef marka má skemmtilega færslu grínistans Sögu Garðarsdóttur.

Kolbeinn Tumi deilir Twitter-færslu Sögu sem hreifst mjög af frammistöðu Selmu á tónleikum þann 17. júní síðastliðinn.

„Samkeppni úr óvæntri átt,“ sagði Kolbeinn Tumi en í færslu sinni sló Saga á létta strengi þegar hún lýsti hrifningu sinni á Selmu.

„Sá Selmu Björns á 17. júní flytja Eurovision syrpu fyrir 3-12 ára krakka og mig í Kópavogi og svo horfði ég á eiginmann minn og hún sprengdi konfettisprengju og við vissum bæði að ég myndi yfirgefa hann ef Selma bæði mig um það.“

Saga hefur verið í hópi vinsælustu skemmtikrafta landsins mörg undanfarin ár og hefur hún meðal annars tekið þátt í að semja vel heppnuð Áramótaskaup á undanförnum árum.

Eiginmaður Sögu er tónlistarmaðurinn Snorri Helgason en þau gengu í hjónaband árið 2018. Kolbeinn Tumi hefur verið fréttastjóri Vísis við góðan orðstír í mörg ár. Þau Selma hafa verið saman nær óslitið í rúm tvö ár.