Klipptu Ivu úr aug­lýsingu vegna skoðana sem hún kannast ekki við

Iva Marín Adrichem, söng­kona og laga­nemi, hyggst leita réttar síns vegna á­kvörðunar Ferða­mála­stofu um að klippa hana út úr kynningar­mynd­bandi sem frum­sýnt var í haust, að þeirra sögn á grund­velli skoðana hennar á trans­fólki. Þetta kemur fram ífrétt Fréttablaðsins.

Mynd­bandið sem um ræðir er liður í fræðslu­verk­efninu Gott að­gengi í ferða­þjónustu sem unnið var í sam­starfi Ferða­mála­stofu, Sjálfs­bjargar lands­sam­bands hreyfi­hamlaðra og Ör­yrkja­banda­lags Ís­lands. Iva hefur lítið verið í sviðs­ljósinu undan­farin ár og segir í sam­tali við Frétta­blaðið það hafa verið með ráðum gert, hún hafi ein­beitt sér að söng og laga­námi.

Iva sendir Frétta­blaðinu til­kynningu vegna málsins sem hún hyggst einnig birta á sam­fé­lags­miðlum sínum. Þar birtir hún skjá­skot af Face­book skila­boðum sem settur ferða­mála­stjóri Elías Bj Gísla­son sendi henni þar sem hann upp­lýsir hana um á­kvörðunina, að sögn vegna skoðana hennar á trans-fólki.

Iva, sem tók þátt í Söngvakeppninni árið 2020, var meðal annars í fréttum það árið vegna stofnunnar sam­taka og um­ræðu­vett­vangs að nafni LGB teymið, sem ætlað var að vera um­ræðu­vett­vangur fyrir sam-og tví­kyn­hneigt fólk. Voru sam­tökin gagn­rýnd fyrir meinta trans­fóbíu, meðal annars af for­svars­mönnum Sam­takanna '78.

„Á þennan sam­skipta­máta er mér til­kynnt af for­stöðu­manni opin­berrar stofnunar, að vegna skoðana minna hefur verið á­kveðið að ég verði klippt út úr kynningar­mynd­bandi sem ég kom fram í fyrir Ferða­mála­stofu og var frum­sýnt í haust. Einnig var mér greint frá því að mynd­bandið yrði endur­gert og annar blindur ein­stak­lingur fenginn til verksins í minn stað.“

Iva segist því næst hafa hringt í Elías og rætt málið við hann. Þar hafi komið fram að kvartanir hafi borist stofnunninni um þátt­töku Ivu í mynd­bandinu og að nýtt mynd­band sé komið í fram­leiðslu.

„Þó var ég ekki upp­lýst um málið fyrr og greini­legt að ég fái ekki tæki­færi til að and­mæla þeirri á­kvörðun að endur­gera mynd­bandið vegna skoðana minna,“ segir Iva Marín.

„Eftir sam­tal við ferða­mála­stjóra er ljóst að honum er hvorki kunnugt um hverjir gerðu at­huga­semdir við hlut­verk mitt í mynd­bandinu, né hvaða skoðana minna eða um­mæla þær at­huga­semdir taka til efnis­lega. Af Face­book skila­boðunum frá ferða­mála­stjóra má hins vegar leiða að mér hafi verið gerðar upp skoðanir sem ég gengst ekki við að hafa.“

Allir frjálsir skoðana sinna á Ís­landi

Iva segir að burt­séð frá skoðunum sínum séu allir frjálsir skoðana sinna og sann­færingar sam­kvæmt ís­lenskri stjórnar­skrá. Þá bendir hún á jafn­ræðis­regluna, sem Ferða­mála­stofu beri skylda til að virða.

„Í henni felst að allir séu jafnir fyrir lögum og njóti mann­réttinda, án til­lits til til­tekinna þátta, þar á meðal skoðana. Því gerast Ferða­mála­stofa, Sjálfs­björg og ÖBÍ aug­ljós­lega brot­leg við megin­stoðir réttar­ríkisins með á­kvörðun sinni um að skerða rétt minn til at­vinnu­þátt­töku vegna pólitískra skoðana, auk þess að valda mér fjár­hags­legu tjóni, mann­orðs­skaða og and­legum miska.“

Iva segir sér­stak­lega á­mælis­vert af Ferða­mála­stofu, sem flokkist undir stjórn­vald, að taka slíka á­kvörðun byggða á nafn­lausum at­huga­semdum, án þess að hafa rætt við alla máls­aðila eða kynnt sér for­sendur og sann­leiks­gildi at­huga­semdanna.

„Einnig skýtur skökku við að sam­tök sem beita sér fyrir réttindum fatlaðs fólks geti ekki virt mann­réttinda­á­kvæði stjórnar­skrár í eigin starfi. Hér hefur ÖBÍ sýnt í verki að sam­tökin starfi ekki í þágu alls fatlaðs fólks þar sem þau eru reiðu­búin að mis­muna ein­stak­lingum á grund­velli opin­berra skoðana. Er gott að­gengi að­eins ætlað þeim sem upp­fylla skil­yrði ofan­greindra aðila um æski­legar skoðanir?“

Iva segist ætla að leita réttar síns. „Ég tel á mér brotið og ætla að leita réttar míns. Að sama skapi varða mann­réttindi okkur öll og því á málið fullt erindi fyrir sjónir al­mennings. Við sem sam­fé­lag þurfum að eiga sam­tal um þessa stefnu í átt til einnar leyfi­legrar skoðunar.“