Frægasta kjúklingabitakeðja heims, KFC, á nú í viðræðum við fasteignafélagið Klettás um mögulega opnun nýs KFC staðar við Norðurtorg á Akureyri. Stjórnendur KFC hafa í tuttugu ár reynt að opna stað fyrir norðan, án árangurs.
Helgi Vilhjálmsson, betur þekktur sem Helgi í Góu, framkvæmdastjóri KFC, segir við Visi.is að ekki sé komin alvara í samræðurnar. Þær séu þó heitar.
„Við erum búin að vera að skoða staði síðustu tíu árin en þeir sem stjórna bæjarfélaginu hafa ekkert haft áhuga á okkur,“ segir Helgi. Hann segist hafa fundið fyrir miklum áhuga Akureyringa á kjúklingastaðnum.
„Það er svo skrítið með bæjarfélög að þau eru eiginlega á móti mönnum sem eru að reyna að gera eitthvað, það er mín reynsla eftir 50 ár. Við þurfum að skríða eftir því að fá lóðir undir iðnað eða fyrirtæki svo koma Ameríkanar í Garðabæ með Costco verslun og bensín og þeir fengu lóð í hvelli,“ segir Helgi.
„Það er stórfurðulegt að þurfa að eyða mörgum árum í fá lóð til að fá fólk í vinnu. Maður spyr sjálfan sig hvað er að bæjarfélaginu.
Þeir ættu að vera inn á gafli hjá mönnum sem nenna að byggja og skaffa bæjarfélaginu tekjur og nenna að standa í þessu en það er þveröfugt. Maður er eiginlega búinn að eyðileggja á sér hnén með því að skríða eftir þessu.“