„Tveggja vikna frí kostar þá um 420 þúsund, bara fyrir gistinguna. Við erum ekki einu sinni byrjuð á veitingum, þrjú þúsund króna hamborgara, vöfflu með rjóma á 800 og tertusneið á sextánhundruðkall,“ segir Karl Th. Birgisson, ritstjóri Herðubreiðar, í pistli á vef sínum sem birtist á dögunum.
Karl skrifaði þar um þann mikla vanda sem íslensk ferðaþjónusta stendur frammi fyrir. Karl segir að því hafi verið haldið fram í útvarpinu í vikunni að gistinótt með morgunmat kostaði víða um 30 þúsund krónur.
„Lausleg markaðskönnun Herðubreiðar leiðir reyndar í ljós að víða er verðið mun hærra, en látum það vera. Hugsum um 30 þúsund,“ segir Karl sem bætir við að tveggja vikna frí, miðað við þessar forsendur, kosti 420 þúsund krónur. Er hann þá aðeins að tala um gistinguna.
Gistinótt sem selst ekki kemur ekki aftur
Karl bendir á að gisting sé eðlisólík flestri annarri söluvöru. Nefnir hann til dæmis íbúðir og bíla í því samhengi, ef við fáum ekki viðunandi tilboð sé hægt að bíða eftir hagstæðara tilboði en þannig virkar það ekki í gistibransanum.
„Gistinótt sem selst ekki fer og kemur aldrei aftur. Verður aldrei seld – ekki einu sinni fyrir þúsundkall. Það sama gildir um flugsæti og bílaleigubíla,“ segir hann og spyr hvað sé þá til ráða til að halda gististöðum gangandi.
„Eflaust verður mörgum einfaldlega lokað í lengri eða skemmri tíma, en fyrir hin er hér alveg ókeypis hugmynd – þjófstolin beint frá IKEA. Rekstrarkostnaður á gististöðum er allajafna svipaður óháð því hvort gestirnir eru tólf eða hundrað. Það þarf að eiga fyrir honum. Og hvað kemur það IKEA við?“
Leiðin sem IKEA fór
Karl segir að matsala IKEA, fjölsóttasti veitingastaður landsins, treysti ekki einungis á hagnað af hverri seldri einingu heldur ekki síður á fjölda gesta.
„Hún byggir á þeirri einföldu hugmynd að með því að bjóða lágt verð færðu miklu fleiri viðskiptavini. Nýting á starfsfólki, húsnæði og tækjum verður miklum mun betri. Og viðskiptavinirnir ánægðari. Þessi leið hefur gert IKEA að vinsælasta veitingastað á Íslandi.“
Karl Th. Endar pistilinn sinn á að spyrja gistihúsaeigendur hvernig það væri ef þeir myndu að minnsta kosti prófa þessa aðferð. Þeir þurfi að selja gistinætur ef það er opið því, eins og hann bendir á, koma óseldar gistinætur aldrei aftur.
„Altjent ætti að vera þess virði að prófa. Lækka verðið ofan í svosem tíuþúsundkall í einhvern tíma. Það eru tíuþúsundkallar sem þið fengjuð annars ekki.“