Karl Th.: Tveggja vikna frí á Ís­landi á 420 þúsund - Fleiri ættu að fara IKEA-leiðina

„Tveggja vikna frí kostar þá um 420 þúsund, bara fyrir gistinguna. Við erum ekki einu sinni byrjuð á veitingum, þrjú þúsund króna ham­borgara, vöfflu með rjóma á 800 og tertu­sneið á sex­tán­hundruð­kall,“ segir Karl Th. Birgis­son, rit­stjóri Herðu­breiðar, í pistli á vef sínum sem birtist á dögunum.

Karl skrifaði þar um þann mikla vanda sem ís­lensk ferða­þjónusta stendur frammi fyrir. Karl segir að því hafi verið haldið fram í út­varpinu í vikunni að gistinótt með morgun­mat kostaði víða um 30 þúsund krónur.

„Laus­leg markaðs­könnun Herðu­breiðar leiðir reyndar í ljós að víða er verðið mun hærra, en látum það vera. Hugsum um 30 þúsund,“ segir Karl sem bætir við að tveggja vikna frí, miðað við þessar for­sendur, kosti 420 þúsund krónur. Er hann þá að­eins að tala um gistinguna.

Gistinótt sem selst ekki kemur ekki aftur

Karl bendir á að gisting sé eðlis­ólík flestri annarri sölu­vöru. Nefnir hann til dæmis í­búðir og bíla í því sam­hengi, ef við fáum ekki við­unandi til­boð sé hægt að bíða eftir hag­stæðara til­boði en þannig virkar það ekki í gisti­bransanum.

„Gistinótt sem selst ekki fer og kemur aldrei aftur. Verður aldrei seld – ekki einu sinni fyrir þúsund­kall. Það sama gildir um flug­sæti og bíla­leigu­bíla,“ segir hann og spyr hvað sé þá til ráða til að halda gisti­stöðum gangandi.

„Ef­laust verður mörgum ein­fald­lega lokað í lengri eða skemmri tíma, en fyrir hin er hér alveg ó­keypis hug­mynd – þjóf­stolin beint frá IKEA. Rekstrar­kostnaður á gisti­stöðum er alla­jafna svipaður óháð því hvort gestirnir eru tólf eða hundrað. Það þarf að eiga fyrir honum. Og hvað kemur það IKEA við?“

Leiðin sem IKEA fór

Karl segir að mat­sala IKEA, fjöl­sóttasti veitinga­staður landsins, treysti ekki einungis á hagnað af hverri seldri einingu heldur ekki síður á fjölda gesta.

„Hún byggir á þeirri ein­földu hug­mynd að með því að bjóða lágt verð færðu miklu fleiri við­skipta­vini. Nýting á starfs­fólki, hús­næði og tækjum verður miklum mun betri. Og við­skipta­vinirnir á­nægðari. Þessi leið hefur gert IKEA að vin­sælasta veitinga­stað á Ís­landi.“

Karl Th. Endar pistilinn sinn á að spyrja gisti­húsa­eig­endur hvernig það væri ef þeir myndu að minnsta kosti prófa þessa að­ferð. Þeir þurfi að selja gisti­nætur ef það er opið því, eins og hann bendir á, koma ó­seldar gisti­nætur aldrei aftur.

„Al­tjent ætti að vera þess virði að prófa. Lækka verðið ofan í svo­sem tíu­þúsund­kall í ein­hvern tíma. Það eru tíu­þúsund­kallar sem þið fengjuð annars ekki.“