Karl með fast skot á Brynjar: „Má ekki sjá vondan mál­stað án þess að reyna að verja hann“

„Brynjar gerði það að hálfu ævi­starfi sínu sem lög­maður að verja saka­menn. Glæpa­menn. Það virðist hafa gengið svo vel að hann getur ekki hætt,“ segir Karl Th. Birgis­son rit­stjóri í pistli á vef Herðu­breiðar.

Þar skrifar hann um Brynjar Níels­son, lög­mann og þing­mann Sjálf­stæðis­flokksins, en til­efnið er gagn­rýni Brynjars á frétt RÚV fyrir helgi um mál­efni Sam­herja. Eins og Hring­braut greindi frá á föstu­dag var Brynjar býsna harð­orður í garð RÚV vegna fréttar um að sex nú­verandi og fyrr­verandi starfs­menn Sam­herja hefðu réttar­­stöðu sak­­bornings í rann­­sókn Héraðs­sak­­sóknara á ætluðum mútum, peninga­þvætti og fleiri brotum sem tengjast Namibíu­­starf­­semi þess.

Um­­ræddir starfs­­menn voru nafn- og mynd­­birtir í um­­fjölluninni og var það það sem fór einna helst fyrir brjóstið á Brynjari. Karl Th. Gefur lítið fyrir gagn­rýni Brynjars.

„Brynjar má ekki sjá vondan mál­stað án þess að reyna að verja hann. Jafn­vel þvert á sönnunar­gögn. Ekki síður eftir að hann varð al­þingis­maður,“ segir Karl Th. Og nefnir nokkur dæmi máli sínu til stuðnings.

„Þegar allir sáu hvernig var í pottinn búið hjá Hönnu Birnu í leka­málinu stóð Brynjar einn eftir í skot­gröfinni með út­úr­snúninga á lofti sem lýstu fyrst og fremst hug­mynda­flugi mála­færslu­mannsins, sem grípur hvert einasta hálm­strá. Ef ekki til þess að sýkna, þá til að milda refsinguna. Hann getur sem­sagt ekki hætt.“

Hann nefnir svo af­stöðu Brynjars í Sam­herja­málinu, máli þar sem sönnunar­gögn benda ein­dregið til þess að „sitt­hvað meira en lítið at­huga­vert“ hafi átt sér stað.

„Rök­semd Brynjars er að nafn- og mynd­birting sé svo erfið og þung­bær fyrir þá sem eiga í hlut. Og fjöl­skyldur þeirra vita­skuld. Þetta er sí­gild rök­semd gegn því að fréttir séu sagðar. Það sé svo erfitt fyrir þá sem fréttirnar eru um. Gud­skelov að Brynjar er bara al­þingis­maður, en ekki rit­stjóri neins staðar,“ segir Karl sem hvetur fólk til að hugsa málið betur.

„Þið getið látið hugann reika yfir helztu saka­mál síðustu ára, ára­tuga, jafn­vel alda, um hvernig fréttir af þeim hefðu verið fluttar ef ekki hefði mátt nefna nöfn eða birta myndir.“

Hann segir að söku­dólginn í þessu máli sé ekki að finna hjá fjöl­miðlum.

„Söku­dólgurinn er alltaf gerandinn, eins og Brynjar ætti að vita eftir öll þessi ár í lög­mennsku. Ekki sá sem lýsir máls­at­vikum eða fram­vindu. Í þessu til­viki er gerandinn Sam­herji og alveg sér­stak­lega Þor­steinn Már Bald­vins­son, ef marka má mörg þúsund máls­gögn. Ef Brynjar vill skamma þann sem veldur fjöl­skyldum starfs­fólks hjá Sam­herja van­líðan, þá er stutt að leita. Hann heitir Þor­steinn Már. Og heima­tökin eru líka hæg. Ef Brynjar er ekki með síma­númerið hjá for­stjóra Sam­herja, þá er Kristján Þór Júlíus­son með það á speed-dial.“