Kaffi Sumarlína hýsir líka stuðningsmannaklúbb

Á Fáskrúðsfirði í fallegu húsi skammt frá sjónum við fjörðinn á glæsilegum útsýnisstað er veitingastaðurinn og kaffihúsið Kaffi Sumarlína. Kaffi Sumarlína hefur notið mikilla vinsælda heimamanna sem og ferðamanna. Hjónin Óðinn Magnason og Björg Hjelm eiga og reka Kaffi Sumarlínu og standa vaktina nánast daglega. Í þættinum Matur og heimili í kvöld heimsækir Sjöfn hjónin og fær að heyra söguna bak við Kaffi Sumarlínu, nafnið og leyndardómana sem þar er að finna.

Heimalagðar veitingar og landsins besta franska súkkulaðikaka

Hjónin bjóða gestum sínum upp á heimlagaðar veitingar og hið margrómaða meðlæti með kaffinu úr héraði. Einnig er kaffihúsið frægt fyrir sínar einstöku pítsur og bæði heimamenn og þjóðþekktir Íslendingar hafa meira segja fengið að njóta þess heiðurs að pítsurnar hafa verið nefndar eftir þeim eins og Gyða Sól sem er ein vinsælasta pítsan á matseðli. Franska súkkulaðikakan á Kaffi Sumarlínu nýtur mikilla vinsælda og ekki af ástæðulausu. Hún er bökuð af ástríðu og natni með frönsku ívafi sem gerir hana svo ómótstæðilega góða. Eflaust ekki tilviljun að franska súkkulaðikakan njóti þessara vinsælda þar sem bærinn býr yfir frönskum blæ.

Sumarlína 4.jpeg

Á kaffihúsinu er að finna marga muni og myndir sem minna á frönsku sjómennina og fleyin þeirra sem hafa svo sannarlega sett svip sinn á bæjarstæðið. Svo eru það leyndardómar Kaffi Sumarlínu sem ekki allir vita af en Mekka United Leeds á Austurlandi er að finna á Kaffi Sumarlínu. „Við fáum hingað fólk gagngert út af þessu, það vill láta mynda sig hér við vegginn,“ ljóstrar Óðinn upp stoltur á svip.

Screenshot 2022-06-13 at 23.14.22.png

Missið ekki af skemmtilegri heimsókn Sjafnar á Kaffi Sumarlínu á Fáskrúðsfirði í þættinum Matur og heimili á Hringbraut í kvöld klukkan 19.00 og aftur klukkan 21.00.

Hægt er að sjá brot úr þætti kvöldsins hér: