Jón Viðar Jónsson leikhúsgagnrýnandi heldur ekki vatni yfir sýningunni Hvað sem þið viljið sem nú er sýnd í Þjóðleikhúsinu. Um er að ræða gamanleik Shakespeares í nýjum búningi í útfærslu þeirra Karls Ágústs Úlfssonar, Ágústu Skúladóttur og Kristjönu Stefánsdóttur.
Jón Viðar segir í færslu á Facebook-síðu sinni að á föstudag hafi hann séð Marat/Sade í Borgarleikhúsinu og báðar þessar sýningar séu á sinn hátt merkisviðburðir sem muni rata í annála íslenskrar leiklistarsögu. Í færslu sinni í gærkvöldi einblínir hann þó á að sýninguna Hvað sem þið viljið.
„Útfærsla þeirra Karls Ágústs og Ágústu Skúladóttur og Kristjönu Stefánsdóttur á As you like it er í stuttu máli sagt svo full af leikhústöfrum að ég man vart eftir öðru eins á íslensku sviði. Og þó að þarna sé farið frjálslega með texta Shakespeares og fantasían fái að flæða um salinn, þá er það ekki gert til að upphefja snilli og frumleik leikstjórans. eins og hefur gerst svo oft í íslenskum Shakespeare-sýningum og nú síðast í hinni hraksmánarlegu útgáfu Leikfélags Reykjavíkur á Macbeth,“ segir Jón Viðar og heldur áfram:
„Öðru nær, hér tekst listafólkinu það sem öllu skiptir: að draga fram á skapandi og skilningsríkan hátt kjarnann í verkinu sem er skoðun skáldsins og leikur að mannlegu ástarlífi í öllum þess margbreytileika. Ég hvet ykkur til að tryggja ykkur miða sem fyrst, einnig og ekki síst ykkur sem haldið að Shakespeare sé ekkert fyrir ykkur af því þið hafið séð svo margar lélegar sýningar á verkum hans; nú fáið þið tækifæri til að kynnast þessari hlið á list hans eins og hún getur orðið í höndum alvöru listamanna sem vita hvað þeir eru að gera.“