Jón Ívar vill bíða með að bólusetja íslensk börn: Sjálfur faðir 13 ára drengs sem stendur til boða að fá bóluefni

Jón Ívar Einarsson, prófessor við Læknadeild Harvard-háskóla, er þeirrar skoðunar að rétt sé að láta börn njóta vafans og bíða með bólusetningu þeirra hérlendis.

Jón Ívar skrifaði grein sem birtist á vef Vísis í morgun þar sem hann bendir á að margir foreldrar séu nú í þeim sporum að taka ákvörðun um bólusetningar barna sinna, nú þegar boðað hefur verið að ráðast skuli í bólusetningu 12 til 15 ára barna. Jón Ívar er sjálfur faðir 13 ára drengs sem stendur til boða að fara í bólusetningu síðar í mánuðinum.

Í grein sinni veltir hann fyrir sér hvort ávinningurinn af bólusetningu sé meiri en áhættan. Jón Ívar tekur skýrt fram að hann sé mjög fylgjandi bólusetningum almennt en bólusetningar meðal barna séu umdeildari í vísindaheiminum.

„Þannig mælir CDC til dæmis með þeim á meðan aðrir hópar fræðimanna eru á öndverðum meiði. WHO mælir eingöngu með bólusetningu 12-15 ára barna ef þau eru í áhættuhópum.“

Jón segir að fyrsta spurningin snúi að því hve mikil hætta sé á að börn láti lífið ef þau smitast af COVID-19. Það er skemmst frá því að segja að hættan er lítil, samkvæmt rannsóknum. Þannig sýna þrjár nýlegar rannsóknir frá Bretlandi að 99.995% barna á aldrinum 0-17 ára sem fengu COVID lifðu af. Þá voru innlagnir á sjúkrahús sjaldgæfar og að meirihluta hjá börnum með undirliggjandi sjúkdóma.

Jón Ívar segir að næst sé rétt að spyrja sig hver áhættan er sem fylgir því að bólusetja börn við COVID-19.

„Í stuttu máli má segja að svarið liggi ekki enn fyrir. Líta má til rannsóknarinnar sem Pfizer framkvæmdi til að fá markaðsleyfi fyrir notkun bóluefnis hjá 12-15 ára börnum. Rannsóknin var gerð á rúmlega 2000 börnum, þar sem 1131 barn fékk bóluefnið og hin lyfleysu. Rannsóknin sýndi að skömmu eftir gjöf seinni skammts bóluefnis höfðu 18 í lyfleysuhópnum sýkst en enginn í Pfizer hópnum og jafnframt kom fram sterkt mótefnasvar í síðarnefnda hópnum.“

Jón Ívar bendir á að langtímavirknin eigi eftir að koma í ljós og rannsóknin sé langt því frá nógu stór til að sýna fram á öryggi bóluefnisins í þessum hópi. Rifjar hann upp umræðu um aukaverkanir bóluefna sem komu fram í dagsljósið fyrr á þessu ári þegar hafist var handa við bólusetningar á heimsvísu.

„Þessar síðkomnu aukaverkanir sem komu í ljós eftir að markaðsleyfi var veitt leiddu svo til þess að sum lönd stöðvuðu bólusetningu ákveðinna hópa með ákveðnum tegundum bóluefna, eins og til dæmis í Danmörku, Noregi og hérlendis í tilfelli AstraZeneca bóluefnisins.“

Jón Ívar segir að af þessari stuttu yfirferð sé óhætt að segja að áhættan sé lítil á báða bóga. Hins vegar vitum við ekki ótvírætt hvernig börn bregðast við bólusetningu við COVID-19.

„Öryggi barna eftir bólusetningu er óþekkt stærð og alls ekki víst að þar sé meiri ávinningur en áhætta. Að mínu mati er því rétt að láta börnin njóta vafans og bíða með bólusetningu þeirra hérlendis, sérstaklega hjá hraustum börnum án áhættuþátta,“ segir hann og bætir við að skynsamlegast væri að fylgjast með þróun erlendis þar sem bólusetningar á börnum eru hafnar.

„Ég hvet foreldra til að íhuga málið vel og ræða við börnin sín áður en ákvörðun er tekin. Ákvörðunina þarf fólk svo að byggja á eigin gildum og skoðunum ásamt því að meta sínar eigin aðstæður, meðal annars með tilliti til áhættuþátta.“