Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi ráðherra, skrifar langa grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Þar svarar hann meðal annars fyrir umfjöllun Stundarinnar sem birtist á dögunum sem unnin var upp úr dagbókarskrifum Þóru Hreinsdóttur, fyrrverandi nemanda hans í Hagaskóla.
Í umfjölluninni kom fram að hann hefði sent Þóru bréf og átt í kynferðislegum samskiptum við hana árið 1970. Þóra lést árið 2016. Umfjöllun Stundarinnar var mjög umfangsmikil og voru meðal annars teknar saman fjöldi ásakana sem komið hafa fram um meinta kynferðislega áreitni Jóns Baldvins gegn fjölda kvenna um árabil.
Svörin lýstu „ástúðlegu“ sambandi
Jón Baldvin segir að gamalt blaðaviðtal við þrjár dætur hans og Bryndísar Schram árið 1995 hafi rifjast upp fyrir honum þegar hann fletti Stundinni. Í viðtalinu voru systurnar spurðar hvernig það væri að eiga svona mömmu og pabba og hvort þær grétu í koddinn yfir þeim sem börn.
„Svör systranna lýsa ástúðlegu sambandi þeirra við foreldra sína. Sú elsta, Aldís – þá 36 ára – kveður fastast að orði um mannkosti föður síns. Þegar sú yngsta, Kolfinna, spyr, hvort þær séu ekki „orðnar of væmnar“, svarar Aldís: „Má hann ekki einhvers staðar njóta sannmælis?““
Jón Baldvin segir að þessi orðaskipti hafi rifjast upp fyrir honum þegar hann fletti Stundinni.
„Sjö opnur að viðbættri forsíðu, hvorki meira né minna. Það var hvorki verið að vara við þriðju heimsstyrjöldinni né yfirvofandi kjarnorkuárás á Úkraínu. Allt var þetta um meintar ávirðingar mínar,“ segir Jón Baldvin í grein sinni og spyr hvert tilefnið hafi verið.
„Dagbókarfærslur unglingsstúlku fyirr meira en hálfri öld, sem áttu að gefa til kynna, að samskipti hennar við kennarann sinn (mig) hefðu verið „af kynferðislegum toga“. Nú hafa aðstandendur konunnar (sem lést fyrir sex árum) upplýst, að hún hafi áður, þegar eftir því var leitað, neitað að birta opinberlega hugleiðingar sínar, sem hún trúði dagbókinni sinni fyrir. Það vekur reyndar spurningar um, hvort þeir eigi ekki að leita á náðir Persónuverndar til að gæta hagsmuna hinnar látnu, sem ekki getur lengur borið hönd fyrir höfuð sér.“
Bendir Jón Baldvin á að aðstandendur hinnar látnu konu harmi það, að „friðhelgi einkalífs“ hennar hafi verið „rofin og vanvirt“ með þessum hætti.
„Þau skora á fjölmiðla og aðra að láta ógert að leiða hana fram sem vitni í sakamáli, sem henni er óviðkomandi. Hér mun vera átt við „rassstrokumálið“, svokallaða. Hinn 8. nóv. 2021 sýknaði Héraðsdómur mig af ásökunum um að hafa „strokið rass utan klæða“ á heimili okkar Bryndísar á Spáni í júní 2018. Ákæruvaldið, sem að mati virtra lögfræðinga hefur ekki einu sinni lögsögu í málinu, hefur áfrýjað dómnum til Landsréttar.“
Jón Baldvin segist að sjálfsögðu ætla að verða við áskorun aðstandenda um að virða friðhelgi einkalífs hinnar látnu. „Þar með læt ég mér nægja að árétta það sem ég hef áður sagt, að umræddur nemandi minn varð ekki fyrir kynferðislegri áreitni af minni hálfu.“
Engar nýjar sakargiftir
Í grein sinni segir Jón Baldvin að engar nýjar sakargiftir sé að finna á þessum sjö opnum. „Engar. Það sem sögurnar, sem þarna eru taldar upp, eiga sameiginlegt er að þær voru allar á sakaskrá Aldísar dóttur minnar frá árinu 2013. Aldís samdi sjálf þessa sakaskrá sem lögfræðingur f.h. sjálfrar sín og annarra ónafngreindra kvenna um meint kynferðislegt áreiti af minni hálfu. Fyrst birti hún þetta, a.m.k. að hluta til, í fjölmiðlum (DV), en lagði síðan fyrir lögreglu til rannsóknar (8. okt. 2013),“ segir hann og bætir við allar þessar sögur hafi haft sinn framgang í réttarkerfinu og niðurstaðan sé ótvíræð.
„Í engu þessara mála þótti vera sýnt fram á, að um refsiverða háttsemi hafi verið að ræða. Þar af leiðandi fannst ekkert tilefni til ákæru.“
Jón Baldvin segir að í réttarríki eigi að leiða mál til lykta með þessum hætti. Ef ekki er sýnt fram á refsiverða háttsemi með haldbærum rökum og vísan til staðreynda teljist hinn kærði vera saklaus.
„Sjálfskipaður siðgæðisvörður Stundarinnar segir af þessu tilefni, að þótt ég sé skv. niðurstöðu réttarkerfisins „saklaus að lögum“ sé hegðun mín engu að síður ámælisverð skv. söguburðinum. Lögleg – en siðlaus. En þá er spurningin: Eru sögurnar sannar? Eigum við að treysta fjölmiðlum til að dæma um það? Fjölmiðlum er ekki fengið dómsvald í réttarríki. Hverjir eiga að dæma, ef ekki sjálfstæðir og óhlutdrægir dómstólar? Getum við treyst „dómstóli götunnar“, ef hann er mataður á ósönnum sögum?“
Ærumissir og atvinnubann
Jón Baldvin nefnir að MeToo-hreyfingin hafi sprottið upp á sínum tíma sem mannréttindahreyfing.
„Hún fór sem slík vítt og breitt um heiminn. Konur sem höfðu mátt sæta kúgun og ofbeldi andmæltu þöggun. Málstaður þeirra fann djúpan hljómgrunn. Þetta var mannréttindabarátta, sem skírskotaði til réttlætiskenndar allra – karla jafnt sem kvenna,“ segir Jón Baldvin og heldur áfram:
„En ef þau, sem ganga fram undir merkjum MeToo, gera sig sek um að ljúga upp sögum um saklaust fólk – af annarlegum hvötum, eins og fjölmörg dæmi sanna – þá eru þau ekki einungis að grafa undan málstað raunverulegra þolenda kynferðisofbeldis; þau eru sjálf orðin að ógn við málstað mannréttinda í réttarríki. Afleiðingarnar geta verið skelfilegar: Ærumissir saklausra, atvinnubann og félagsleg útskúfun að ósekju.“
Hann segir að hérna séum við farin að nálgast kjarna málsins.
„Í upphafi þessarar greinar vitnaði ég til loflegra ummæla elstu dóttur okkar Bryndísar um föður hennar. Hún sagðist ekki þekkja þá mynd, sem fjölmiðlar hefðu dregið upp af honum. Og spurði: Má hann þá hvergi njóta sannmælis?
Hvers vegna hefur ástúð og gagnkvæm virðing snúist upp í hatur og hefndarhug? Svarið við því er þetta: Samkvæmt þágildandi lögum var það mitt hlutskipti að veita ítrekað samþykki f.h. aðstandenda við beiðni geðlækna um nauðungarvistun á geðdeild – og í einu tilviki jafnvel um sjálfræðissviptingu – til þess að dóttir mín fengið notið bráðnauðsynlegrar læknishjálpar. Þetta er grafalvarlegt mál og hefur haft skelfilegar afleiðingar. Það er þetta sem hefur umhverft ást í hatur – umhyggju í hefndarhug.“
Alla grein Jóns Baldvins má lesa í Morgunblaðinu í dag.