„Eftir hrun var Gunnar Smári síðan fljótur að byrja að drulla okkur út í sínum ummælum og skrifum. Og svo er hann sósíalistaforingi í dag, maður sem í þá daga nennti helst ekki til Danmerkur nema að fá undir sig einkaþotu,“ segir Jón Ásgeir Jóhannesson í nýrri bók, Málsvörn.
Viðskiptablaðið birtir í dag brot úr bókinni sem skrifuð er af Einari Kárasyni. Í umræddum kafla er meðal annars fjallað um tímann í byrjun aldarinnar þegar Gunnar Smári stýrði fjölmiðlaveldi Jóns Ásgeirs og sjónum beint að árunum í Danmörku þegar Nyhedsavisen var stofnað og gefið út á árunum 2006 til 2008.
Jón Ásgeir segir að engin heimavinna hafi verið unnin áður en fríblaðið var stofnað í Danmörku.
„Það var tilkynnt digurbarkalega á blaðamannafundi um stofnun blaðsins löngu áður en það átti að fara að koma út. Og gefið í skyn að samkeppnin mætti fara að vara sig. Sem þýddi að hún hafði nægan tíma til að undirbúa það, starta sínum eigin fríblöðum og svo framvegis. Svo höfðu menn ekkert hugsað út í það að þótt það sé yfirleitt opið að utan að póstkössum og lúgum hér á landi, þá þarf lykla til að komast að þeim víðast hvar í Danmörku. Gunnar Smári lét sig á endanum hverfa og tapið var gígantískt, og líka á öðru fríblaði, Boston Now vestanhafs, þótt ekki væri það sambærilegt við tapið í Danmörku. Eftir hrun var Gunnar Smári síðan fljótur að byrja að drulla okkur út í sínum ummælum og skrifum. Og svo er hann sósíalistaforingi í dag, maður sem í þá daga nennti helst ekki til Danmerkur nema að fá undir sig einkaþotu.