Jóhannes opnar sig um örlagaríka viðtalið: „Átti ekki von á því að þeir myndu ljúga að manni í tvær vikur“

Jóhannes Þór Skúla­son segir tíma sinn í for­sætis­ráðu­neytinu sem að­stoðar­maður Sig­mundar Davíðs Gunn­laugs­sonar hafi verið rússi­bana­reið en þar voru þeir frá 2013 til 2016. Þetta segir Jóhannes í nýjasta þætti Mannamáls.

Hann segir að á þeirra borði á þessum tíma hafi verið stór verk­efni tengd hruninu og Al­þjóða­gjald­eyris­sjóðnum.

„Ég fór inn í þetta með það í huga að þetta er for­réttinda­starf. Maður verður að muna það,“ segir hann og að í þeirri stöðu sé fólk með meiri upp­lýsingar, en að það gefi fólki þar samt ekki leyfi til að hugsa að það hafi réttara fyrir sér en aðrir.

„Maður verður að vera til­búinn að hlusta á önnur sjónar­mið,“ segir hann og tekur fram að hann haldi því ekki fram að honum hafi tekist þetta full­kom­lega.

Þá segir hann mikil­vægt í pólitík að muna það góða með því slæma og minnist orða Atla Ás­munds­sonar, vinar hans.

„Pólitík er dag­lega litlar krísur sem stundum eru truflaðar af stórum krísum,“ segir Jóhannes og að eins geti í pólitík verið klippt á þátt­töku manns í henni með stuttum fyrir­vara.

Spurður um það hvernig honum leið þegar Sig­mundur Davíð var í eftirminnilegu við­tali hjá SVT segir Jóhannes eitt það súrrealískasta sem hann hefur lent í. Sig­mundur Davíð gekk út úr við­talinu og var sýnt frá því í Kast­ljósi. Hægt er að horfa á það hér.

„Þetta voru blaða­menn frá virtum miðlum sem maður átti ekki von á því að myndu ljúga að manni í tvær vikur um það hvað þeir væru að gera. Ég hef alltaf verið mjög ó­sáttur við það,“ segir Jóhannes og að honum hafi eftir það þótt gott að Sig­mundur og eigin­kona hans, Anna Sigur­laug Páls­dóttir, hafi opnað á allt sitt um leið og að hann hafi ekki upp­lifað að það væri verið að fela neitt fyrir honum.

„Þetta var mjög erfiður tími og flókið mál,“ segir hann og að á þeim tíma hafi þeir verið með fjöl­miðla alls hins vest­ræna heims á herðum sér.