Jóhanna var afskrifuð á Íslandi: „Þannig ég var mjög hrædd að koma fram“

Jóhanna Birna Bjartmarsdóttir stundar nám í virtum háskóla í Bandaríkjunum en þegar hún stundaði nám á Íslandi glímdi hún við mikla erfiðleika í skólakerfinu. Jóhann setur nú upp kerfi sem á að gera nemendum auðvelt fyrir að takast á við erfiðleika.

„Ég var mjög aktívur nemi, með mjög mikið ADHD. Það þurfti að senda mig út í tíunda bekk að hlaupa í kringum skólann. Ég las á jafn miklum hraða og þriðji bekkingur í tíunda bekk, þótt ég væri hjá þremur sérkennurum með allan pakkann,“ sagði Jóhanna á Fréttavaktinni á Hringbraut í gærkvöldi.

Hún segist þó hafa verið með ágætis einkunnir en í raun verið afskrifuð vegna veikinda sinna.

„Ég var eginlega komin í hjólastól þegar ég var fimmtán ára, sem var mjög erfitt og þá datt ég eiginlega bara alveg út úr skólakerfinu.“

Því segist hún hafa farið að efast um framtíð sína í skólakerfinu.

„Ég sé ekki fram á endann. Afhverju myndi ég vilja eyða miljónum í að fara í skóla og mennta mig þegar ég yrði allt of lengi að því. Ég myndi ekki geta gert neitt við það.“

Jóhanna er greind með lesblindu, einhverfu og athyglisbrest, en segir að í skólanum í Bandaríkjunum henti uppsetningin á náminu henni mjög vel. Til dæmis stundar hún námið á netinu.

„Þar fá kennarar ekki jafn mikið tækifæri á að láta fordóma sína bitna á náminu mínu.“ segir hún.

Á dögunum var Jóhanna með erindi á ráðstefnu Barna- og unglingageðdeildar um skólaforðun. Hún segir að fyrir það hafi fólk hvatt hana til að tjá sig ekki um sínar greiningar.

„Mér hefur verið sagt: „Ekki segja kennurunum þínum hvaða greiningar þú ert með því þeir gætu einfaldlega fellt þig, eða látið það bitna á menntuninni þinni,“ Þannig ég var mjög hrædd að koma fram á ráðstefnunni.“

Viðtalið við Jóhönnu má sjá í spilaranum fyrir neðan.