„Til stóð að ég yrði í þessari Nova-strípalinga-auglýsingu en þegar til kastanna kom þótti ég of vel vaxinn. Mér datt í hug að ykkur þætti kannski gaman að vita þetta,“ segir Jakob Bjarnar Grétarsson, blaðamaður Vísis, í skemmtilegri færslu á Facebook-síðu sinni.
Óhætt er að segja að auglýsing fjarskiptafyrirtækisins Nova hafi vakið athygli síðastliðinn sólarhring. Slagorð auglýsingarinnar er „Alllir úr“ og koma leikararnir í auglýsingunni fram naktir.
Sjá einnig: Auglýsingin frá Nova sem allir eru að tala um: Verður þetta umtalaðasta auglýsing sögunnar?
Markmiðið með auglýsingunni er tvennskonar hjá Nova; annars vegar að vekja athygli á snjallúrum og lausnum Nova en hins vegar að vekja athygli á líkamsvirðingu og glansmyndinni á samfélagsmiðlum sem ekki gefur alltaf rétta mynd.
Jakob Bjarnar segir frá því að hann hafi átt að vera á meðal strípalinganna í auglýsingunni, en þátttaka hans hafi verið afturkölluð skömmu áður en tökur hófust. Jakob Bjarnar segir:
„Þetta var þannig að ég var þarna á sloppnum á settinu. Svo var verið að gera klárt og ég fór úr og byrjaði að ... sem sagt, strípalingast, eins og við strípalingar gerum þá hrópaði Bragi Valdimar óvænt: stopp, stopp. Og sagði: Þetta gengur ekki. Þú ert alltof vel byggður. Þetta á að vera venjulegt fólk. Ég varð fremur undrandi því ég hef hingað til ekki litið á mig sem einhvern Sean Connery Íslands. En svona er þetta.“