Jakob Valgeir hristir hausinn: Óþarfi að gefa svona mikinn afslátt af verðinu

Jakob Valgeir Flosason, einn þeirra fagfjárfesta sem tók þátt í útboði Íslandsbanka á dögunum, segir að það hafi verið algjör óþarfi að gefa svona mikinn afslátt.

Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Jakob keypti fyrir tæpan milljarð króna í útboðinu sem mikill styr hefur staðið um, einkum vegna verðsins sem ríkið fékk fyrir hlutinn.

„Að mínu mati hefði ríkið átt að selja til fárra en öflugra kjölfestufjárfesta, eins og talað var um í upphafi,“ segir Jakob í Fréttablaðinu.

„Í staðinn voru það aðallega lífeyrissjóðirnir sem pressuðu verðið niður í þessar 117 krónur á hlut. Ég veit það fyrir víst að ríkið hefði getað selt á genginu 122 ef þeir hefðu einbeitt sér að þeim sem voru tilbúnir til að borga meira.“