Jakob ósáttur út í Brynjar: „Ætti að vera fyrir neðan þína virðingu“

Brynjar Níelsson, aðstoðarmaður ráðherra og fyrrverandi þingmaður, fer hörðum orðum um fjölmiðla í færslu sem birtist á Facebook á dögunum, en hann sakar þá meðal annars um spillingu.

„Fjölmiðlar og fjölmiðlamenn eru svo pikkfastir í eigin pólitík að þeir eru hættir að skynja og skilja hvað er spilling. Kannski hafa þeir aldrei gert það. Þeim finnst sjálfsagt þegar hentar þeirra sjónarmiðum að stjórnvöld sýkni dæmda menn og greiða þeim svo himinháar bætur, auðvitað úr vasa skattgreiðenda.“ Skrifar Brynjar meðal annars í langri færslu sinni.

Blaðamaðurinn Jakob Bjarnar Grétarsson virðist ekki ánægður með þessi skrif Brynjars, og segir þau vera fyrir neðan hans virðingu og til marks um það að hann sé kominn út í horn.

„Æji, Brynjar minn. Það er til marks um að menn séu komnir út í horn þegar þeir vilja kenna fjölmiðlum um og gera út á blóraböggulshlutverk þeirra. Þó þetta virki alltaf á tiltekið mengi heyhausa ætti þessi taktík að vera fyrir neðan þína virðingu.“

Brynjar svarar um hæl og segir fjölmiðlamenn vera viðkvæmustu stéttina, viðkvæmari en stjórnmálamenn.

„Hvaða hvaða! Enginn að kenna fjölmiðlum um neitt. Bara að segja sem allir vita og hvatning um að menn taki sig taki og sýni meiri fagmennsku og sjálfsgagnrýni. Þetta virðist vera eina stéttin sem ekki má gagnrýna og heldur viðkvæmari en stjórnmálamenn og er þá mikið sagt. Veltið þið nú fyrir ykkur hvort hægt sé að gera betur, og hvað þarf þá til, í stað þess að fara í vörn eins og einhver sé að kenna ykkur um.“