Jakob Bjarnar segir viðtal Eddu við Vítalíu meingallað: „Mörgum spurningum ósvarað“

Mikið vantar upp á í upplýsingar í máli Vítalíu Lazarsevu, þetta sagði Jakob Bjarnar Grétarsson, blaðamaður Vísis, í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

„Ég er auðvitað mjög hugsi yfir þessu eins og líklega allir. Það er einhver þórðargleði í þessu sem mér líkar alls ekki vel. Það þorir enginn að tala um þetta nema Helgi Áss, hann er að reyna að vernda réttarríkið en það er auðvitað mörgum spurningum ósvarað í þessu. Þetta er ekkert kvitt og klárt,“ sagði hann.

„Strax í kjölfarið á þessu viðtali koma allir helstu foringja femínista fram og lýsa yfir gríðarlegum sigri en láta það einatt fylgja sögunni að þeir óttist bakslag. Þá spyr maður náttúrulega, hvaða sigur erum við að tala um og hvaða bakslag?“

Hann segir viðtal Eddu Falak við Vítalíu vera meingallað. „Það vantar í það ýmsar upplýsingar.“ Fimmmenningarnir svokölluðu voru ekki nafngreindir þar, það kom í fjölmiðlum síðar. „Þessir fimmmenningar eru á flótta. Við höfum ekkert heyrt í þeim. Tveir þeirra, Logi og Hreggviður, senda frá sér mjög snubbóttar tilkynningar,“ segir hann. Yfirlýsing Hreggviðs gangi ekki upp. „Logi? Hann lýsir yfir sakleysi sínu en segist hafa farið yfir mörk, hvaða mörk? Ég tel að margir líti á það, að þeir skuli ekki stíga fram og greini frá því hvernig þetta horfi við sér, margir túlki það sem einhvers konar játningu, eða ég veit ekki hvað.“

Jakob segir að það sé ekki hægt að horfa fram hjá því að dómstóll götunnar sé að verki. Benti spyrill honum á að það sé vegna þess að litið sé svo á að aðrir dómstólar virki ekki sem skyldi.

„Eitt afsakar ekki annað. Það er einmitt í því andrými dómstóls götunnar sem illmennin þrífast best. Það er það sem ég hef áhyggjur af.“

Jakob tekur fram að hann sé alls ekki að verja fimmmenninganna.

„Maður trúir því alveg, eftir að hafa hlustað á hana, að þessir menn hafi farið yfir einhverjar grensur.“