Kakkalakkar geta auðveldlega komist á milli íbúða í fjölbýlishúsum hér á landi. Þetta segir Guðmundur Óli Scheving, meindýraeyðir í viðtali í síðdegisútvarpi Rásar 2.
„Það fóru í kringum 70-80 þúsund manns til Tenerife núna á þessum þremur, fjórum mánuðum sem liðnir eru og svo erum við að fá tvær milljónir manna frá löndum þar sem svona dýr eru landlæg.Við erum duglegust við að dreifa þessu,“ segir Guðmundur sem segir þrjár tegundir hafa gert sig heimakærar á Íslandi.
„Þetta er að koma upp annað kastið og þetta fer náttúrulega á milli hæða, þetta fer í gegnum loftræstikerfin og fer þannig á milli hæða, þannig fólk hefur veriðað glíma við þetta í fjölbýlishúsi, ég veit það,“ segir Guðmundur.
„Það eina sem hægt er að gera er að reyna að veiða þetta. Það eru til sérstök hormónaspjöld sem eru eingöngu fyrir kakkalakka og þetta eru mjög öflug spjöld sem eru búin til í Japan og þau taka allt, líka litlu kakkalakkana, sem eru á ferðinni líka.“
Hvar límir maður þetta?
„Þetta er svona eins og lítil gildra með æti í og þeir koma í þessu í umvörpum og spjöldin fyllast af þessu ef það er mikið um þá. En þetta líka tæmir íbúðina.“
Guðmundur segir oft á tíðum rosalega erfitt að eiga við kakkalakka. „Vegna þess að ef þú ert að eitra fyrir þessum dýrum, og ef það misheppnast eitrunin þá þarftu að skipta um efni og þú getur ekki notað sama efnið,“ segir Guðmundur.
Spurður hvaða skaða kakkalakkar geta unnið segir Guðmundur:
„Þeir eru náttúrulega í mat, það er aðallega það. Þeir eru á fullu í öllum mat og það er ólíft af þeim og svo er þetta að fjölga sér, þannig að allt í einu eru kakkalakkar komnir út um allt hjá þér.“
Eru þetta stór kvikindi?
„Þetta eru mismunandi tegundir. Ef þetta er ameríska kakkalakkinn þá er hann sú stærsta sem við erum að fá hingað. Hann er einmitt á Tenerife og Spáni og þessum stöðum,“ segir Guðmundur.
„Svo erum við með þýskan kakkalakka, sem er ennþá minni. Síðan erum við að fá þennan austurlenska, hann er að láta sjá sig aftur og aftur.“