Matreiðslumeistarar á Brút, í samstarfi við Háskóla Íslands og Íslenska erfðagreiningu, hafa ræktað steikur og fiskflök til manneldis. Veitingahúsið Brút verður þannig með fyrstu veitingastöðum í Norður-Evrópu til að bera fram svokallað kjötlíki og er þetta í fyrsta sinn sem fiskur er búinn til með þessum hætti. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Undirbúningur verkefnisins Samviskupróteinið var unninn með styrk úr Nýsköpunarsjóði, auk þess sem erlend einkafyrirtæki komu að fjármögnuninni. Íslendingar leiddu verkefnið og segir forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, Kári Stefánsson, verkefnið vera tímamótatilraun.
„Það er alls ekki það sama að rækta lifur til að setja í manneskju eða að rækta steik sem hún borðar,“ segir Kári. „En það er ágætisupphitun.“
Kári segir dýraverndunarsjónarmið hafa heillað, „að geta notið kjöts sem aldrei hefur verið tekið af hófunum.“
Árið 2012 tókst hollenskum vísindamönnum fyrst að framleiða kjöt með þessum hætti með stofnfrumum úr kýrvöðva en þá var aðferðin afar dýr og þótti ekki vænleg til þess að framleiða kjöt í miklu magni. Íslenskt vísindafólk hefur nú fundið leið til að framleiða kjöt og fisk, í fyrsta sinn, í magni sem hentar einum veitingastað.
Tilboð verður á tveggja rétta seðli í hádeginu í dag, föstudag, á veitingastaðnum Brút til að kynna verkefnið og skoða áhuga almennings. Í forrétt er Samvisku-nautatartar og jarðskokkamauk og í aðalrétt er karfi, „Kári“ með tómötum, ólífum og ólífuolíu. Matseðillinn kostar 3.900 krónur. Kári ætlar að mæta í hádeginu og segist spenntur, „eins spenntur og svona skarfur eins og ég getur orðið.“
