Ís­lensk erfða­greing ræktar steikur og fisk­flök til mann­eldis: „Að geta notið kjöts sem aldrei hefur verið tekið af hófunum“

Mat­reiðslu­meistarar á Brút, í sam­starfi við Há­skóla Ís­lands og Ís­lenska erfða­greiningu, hafa ræktað steikur og fisk­flök til mann­eldis. Veitinga­húsið Brút verður þannig með fyrstu veitinga­stöðum í Norður-Evrópu til að bera fram svo­kallað kjöt­líki og er þetta í fyrsta sinn sem fiskur er búinn til með þessum hætti. Þetta kemur fram í Frétta­blaðinu í dag.

Undir­búningur verk­efnisins Sam­visku­próteinið var unninn með styrk úr Ný­sköpunar­sjóði, auk þess sem er­lend einka­fyrir­tæki komu að fjár­mögnuninni. Ís­lendingar leiddu verk­efnið og segir for­stjóri Ís­lenskrar erfða­greiningar, Kári Stefáns­son, verk­efnið vera tíma­móta­til­raun.

„Það er alls ekki það sama að rækta lifur til að setja í mann­eskju eða að rækta steik sem hún borðar,“ segir Kári. „En það er á­gætis­upp­hitun.“

Kári segir dýra­verndunar­sjónar­mið hafa heillað, „að geta notið kjöts sem aldrei hefur verið tekið af hófunum.“

Árið 2012 tókst hollenskum vísinda­mönnum fyrst að fram­leiða kjöt með þessum hætti með stofn­frumum úr kýr­vöðva en þá var að­ferðin afar dýr og þótti ekki væn­leg til þess að fram­leiða kjöt í miklu magni. Ís­lenskt vísinda­fólk hefur nú fundið leið til að fram­leiða kjöt og fisk, í fyrsta sinn, í magni sem hentar einum veitinga­stað.

Til­boð verður á tveggja rétta seðli í há­deginu í dag, föstu­dag, á veitinga­staðnum Brút til að kynna verk­efnið og skoða á­huga al­mennings. Í for­rétt er Sam­visku-nautatartar og jarð­skokka­mauk og í aðal­rétt er karfi, „Kári“ með tómötum, ó­lífum og ó­lífu­olíu. Mat­seðillinn kostar 3.900 krónur. Kári ætlar að mæta í há­deginu og segist spenntur, „eins spenntur og svona skarfur eins og ég getur orðið.“

Fréttablaðið/Anton Brink