Inga Lind skorar á Áslaugu að borða augað úr sviðakjammanum

Í þættinum Matur og Heimili í kvöld hittir Sjöfn Þórðar, Garðbæingana, athafnakonurnar og gleðigjafana þær Áslaugu Huldu Jónsdóttur og Ingu Lind Karlsdóttur heima í eldhúsinu hjá Áslaugu Huldu þar sem Sjöfn kemur færandi hendi með þorramat eins og hann gerist bestur. Þær stöllur er vanar að mæta á hið árlega Þorrablót Stjörnunnar en ekkert blót er framundan nú á Bóndadag líkt og í fyrra.

Vegna samkomutakmarkana verða vart mörg þorrablót haldin í ár og því fátt annað að gera en að færa þorramatinn aftur inn á heimili fólks.

M&H Þorramaturinn áslaug Hulda

„Það sem mér finnst kannski verst við þorrann í ár að það verður ekki Þorrablót hjá Stjörnunni, en það hefur verið svona hápunkturinn hjá mér og mörgum Garðbæingum. Mér finnst rosalega skemmtileg stemning og menning kringum þorrablótin en maturinn kannski ekki alveg það sem mig langar í,“segir Áslaug þegar hún er spurð út í hefðir sínar og siði kringum þorrann. „En mig langar að vera manneskjan sem borðar allt þorraborðinu.“

„Áslaug er algjörlega að misskilja þetta, þorramaturinn er aðalmálið. Ég er lang spenntust yfir þorramatnum og ræðst nánast á hlaðborðið þegar ég mæti,“segir Inga Lind og bætir því við að hún sé alin upp við þorramatinn og mamma hennar hafi soðið svið og útbúið fleira góðgæti í þorranum.

Inga Lind skorar á Áslaugu að fara alla leið í þorramatnum í þættinum og fær hana til að smakka það sem Ingu Lind þykir best og sker augað úr sviðakjammanum fyrir Áslaugu.

Missið ekki að stórskemmtilegu viðtali og þorraveislu heima hjá Áslaugu Huldu í þættinum Matur og Heimili í kvöld á Hringbraut.

Þátturinn Matur og Heimili með Sjöfn Þórðar er sýndur klukkan 19.00 og fyrsta endursýning er klukkan 21.00 í kvöld.