Inga í Siðmennt segir að Þjóðkirkjan ætti að selja kirkjur: „Seljið eigur yðar og gefið ölmusu“

Inga Auðbjörg Straumland, formaður Siðmenntar, segir í grein á Vísi að ef rekstur kirkna um allar jarðir sé Þjóðkirkjunni ofviða þá ætti að selja eitthvað af þeim.

Pétur Markan, biskupsritari, sagði í annarri grein á Vísi að sóknargjaldið sé skert fjórtánda árið í röð og nú lækkað. Pétur segir að ríkið stendur trúfélögunum aðeins skil á rétt rúmlega helmingi þeirra sóknargjalda sem innheimt eru. Hann vitnaði svo í samtal við Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra:

„Núverandi fjármálaráðherra komst m.a. þannig að orði í samtali við undirritaðan árið 2013, að hér væri í raun um ígildi fjárdráttar eða þjófnaðar að ræða.“

Inga segir Siðmennt þiggi sóknargjöld á meðan sóknargjaldakerfið sé við lýði, en telur að leggja ætti kerfið niður í núverandi mynd. Þá mundi Siðmennt ekki mótmæla niðurfellingu á tímabundinni hækkun sóknargjalda frá í fyrra. Hún gefur lítið fyrir orð Péturs:

„Nýlega gerði ríkið samning við Þjóðkirkjuna sem kvað á um fastan stuðning til fimmtán ára, óháð því hvort það fækkaði félögum í kirkjunni. Þar er um að ræða milljarða á milljarða ofan.“

Varðandi ástand kirkna segir Inga að ef þær séu að grotna niður í myglu og vanrækslu vegna vangoldinna sóknargjalda þá ætti að selja þær. Vitnar hún í Lúkasarguðspjall: „„Seljið eigur yðar og gefið ölmusu, fáið yður pyngjur, er fyrnast ekki, fjársjóð á himnum, er þrýtur ekki, þar sem þjófur fær eigi í nánd komist né mölur spillt. Því hvar sem fjársjóður yðar er, þar mun og hjarta yðar vera. (Lúkas 12:33-34).“

Inga segir: „Ef að rekstur kirkna um allar jarðir er Þjóðkirkjunni ofviða, þá hlýtur svarið að vera að selja eitthvað af þeim, í stað þess að láta þær allar grotna niður í þrjósku.“

Hún segir þetta ekkert nýtt:

„Ég hef komið inn í tónleikarými og skemmtistaði í Evrópu sem eru í afhelguðum kirkjum, og það hefur komið feykivel út. Þá gæti hið opinbera jafnvel keypt eitthvað af þessum eignum og gert að samkomuhúsum fyrir almenning, þar sem fólk getur hist og haldið viðburði, þvert á lífsskoðanir.“

Það sé þá alls ekki rétt að kirkjur séu fyrir alla: „Þjónustuþegar Siðmenntar eru til dæmis oft í vandræðum með staði fyrir útfarir—en veraldlegum útförum hefur verið úthýst úr rýmum Þjóðkirkjunnar—og með örlitlum breytingum gætu margar kirkjur landsins verið frábær fjölnota athafnahús fyrir fólk með alls konar lífsskoðanir.“