Fjölmiðlamaðurinn Illugi Jökulsson minnist skemmtilegs samtals sem hann segist hafa átt við ömmu sína þegar hann var fjögurra ára gamall.
Illugi segir að um hafi verið að ræða sína fyrstu kennslustund í fótbolta, en þá var hann að skoða stórt veggteppi sem amma hans hafði saumað.
Þá spratt upp skemmtilegt spjall þeirra á milli sem hann rifjar upp:
„Mína fyrstu kennslustund í fótbolta fékk ég fjögra ára gamall á Reynimel 23 þegar ég skoðaði veggteppi sem amma Elísabet hafði saumað út og sýndi tvö fótboltalið í æsispennandi keppni.
„Hvað eru þeir að gera, amma?“ spurði ég og benti á kallana á vellinum.
„Þeir eru að reyna að sparka boltanum þarna í mörkin hérna báðum megin á vellinum,“ sagði amma.
„En af hverju snúa þessir öðruvísi?“ spurði ég og benti á tvo kalla sem stóðu rétt fyrir framan mörkin tvö, sneru öðruvísi en hinir og virtust veifa út höndunum.
„Þetta eru markverðirnir,“ sagði amma. „Þeir eru að reyna að passa að boltinn lendi ekki í markinu.“
„En amma, af hverju eru þeir að skemma fyrir öllum hinum sem eru að reyna að setja boltann í markið?“ spurði ég enn.
Amma hnyklaði brúnir. Hún hafði greinilega aldrei velt þessu fyrir sér meðan hún saumaði út veggteppið. Að lokum viðurkenndi hún hreinskilnislega:
„Veistu Illugi minn, ég hef bara ekki hugmynd um það.““