Íbúi í miðborginni: „Það eru rottur út um allt hérna“

Íbúi í miðborg Reykjavíkur veltir fyrir sér hvort rottum sé að fjölga í miðborginni. „Það eru rottur út um allt hérna við Snorrabraut/Njálsgötu. Eru aðrir varir við það,“ spyr viðkomandi í Facebook-hópi íbúa í miðborginni.

Einn bendir á að þetta eigi til að gerast þegar opið er niður í ræsi vegna framkvæmda og annar segir að það borgi sig að hringja í borgina. „Hef einu sinni gert það þegar ég sá rottu og það var brugðist alveg ótrúlega hratt við.“

Fréttablaðið fjallaði um rottugang í Reykjavík fyrr á þessu ári og vísaði ársskýrslu meindýravarna fyrir síðasta ár. Alls bárust 352 kvartanir um rottu- og músa­gang; þar af 134 vegna rottugangs.

Rætt var við Ólaf Inga Hreiðarsson hjá meindýravörnum borgarinnar sem sagði að almennt væru meindýravarnir í borginni til fyrirmyndar og vel haldið á spöðunum.