Hummaði ein­kennin frá sér en reyndist með ill­vægan sjúk­dóm: „Kyn­lífið er skrítið. Það er skrítið að setjast niður“

„Árið er 1996. Ég bý í Banda­ríkjunum, er í námi og stunda knatt­spyrnu. Ég fæ gríðar­mikið högg í punginn þegar bolta er spyrnt af öllu afli í mig úr ná­vígi. Þetta er ó­happ. Þau gerast. Sama kvöld pissa ég blóði,“ svona hefst pistill Steinars B. Aðal­björns­sonar, mat­væla- og næringar­færðings á Vísir.is í dag.

Hann segir þar að hann hafi verð með ein­kenni í fjögur ár en hummað þau frá sér.

„Daginn eftir er mikill sárs­auki. Ég fer til læknis sem lætur mig pissa í glas. Í þvaginu er allt í rugli. Hvít blóð­korn í allt­of miklu magni og fleira til. Ég fæ lyf. Mér er sagt að koma aftur að viku liðinni. Sem ég geri. Ég pissa aftur í glas. Allt miklu betra en samt ekki 100%. Skila­boðin sem ég fæ eru að koma aftur eftir 2 vikur ef ein­kennin eru ekki al­ger­lega farin. Ein­kennin fara eigin­lega aldrei. Ég fer samt ekki aftur til læknisins,“ skrifar Steinar.
„Kyn­lífið er skrítið. Það er skrítið að setjast niður. Það er skrítið að koma við annað eistað – það er við­kvæmt. Smátt og smátt myndast ein­hvers­konar þykk­ildi á eistanu.
Síðan líða fjögur ár. Í fjögur ár er ég dag­lega minntur á að það er ekki allt í lagi þarna niðri. Helmingur eistans er þakinn ein­hverju sem á ekki að vera þarna. Samt geri ég ekki neitt,“ skrifar Steinar.

Hann skrifar síðan hvað hann hugsaði á þessum tíma:
Æ þetta er bara vesen. Þetta eru bara ó­þarfar á­hyggjur. Ég veit að þetta er bara eitt­hvað sem líður hjá. Það er bara þannig. Og jafn­vel ef eitt­hvað er að þá er það bara enn­þá meira vesen fyrir fjöl­skylduna. Þau munu hafa á­hyggjur og þeim mun líða illa yfir þessu. Nei það er best bara að þegja. Þetta fer bara á endanum. Pott­þétt! Ég veit það!“

„Á Valentínusar­daginn árið 2000 sest ég niður í sófa en sprett á fætur. Fjögurra ára dóttir mín hlýtur að hafa skilið eitt­hvað odd­hvasst eftir í sófanum. Nei, það er ekki neitt þarna – þetta er eistað enn á ný. Ég hringi í lækni og fæ tíma strax daginn eftir. Annar læknir daginn þar á eftir. Óm­skoðun. Læknirinn segir að þetta sé krabba­mein og hann hafi séð svona marg­oft. Leggur til að fjar­lægja eistað. Ég leita skoðunar hjá öðrum sér­fræðingi. Og svo hjá þeim þriðja, dr. Lawrence Ein­horn, sem segir orð­rétt eftir langt sam­tal: „Þú ert með tvö eistu, eitt dugar. Ekki taka á­hættuna. Láttu taka eistað.“ Eistað er svo fjar­lægt nokkrum dögum síðar,“ skrifar Steinar.


„Svo kemur biðin - er þetta ill­kynja? Það þarf að skoða það. Er þetta búið að dreifa sér? Það er mögu­leiki að mati læknanna vegna þess hversu lengi ég hef hummað greini­leg ein­kenni fram af mér. Það þarf líka að skoða það. Er ég að fara að deyja..........? Þremur vikum síðar er eistað farið og ég kominn á veg endur­upp­byggingar á líkama og sál,“ heldur Steinar á­fram.

„Ég fékk krabba­mein og hummaði fram af mér ein­kennin. Ég var heppinn, stál­heppinn, að það kæmi ekki í bakið á mér að bíða svona lengi. Í raun beið ég svo lengi að það er eigin­lega bara frá­bær og ein­stök saga í sjálfu sér að ég get skrifað þennan pistil til ykkar í dag.
Við karl­menn erum því miður oft of seinir til verka þegar kemur að okkar eigin heilsu. Þar liggur margt að baki og hjá mér var það kvíði og hræðsla við hið ó­þekkta. Það var auð­veldara að stinga höfðinu í sandinn og vona að „vesenið“ færi af sjálfu sér. Sem það að sjálf­sögðu gerði ekki!“


„Ef þú ert með ein­kenni, ekki vera sami kjáni og ég var. Töl­fræðin er með okkur ef við erum með­vitaðir um hvaða ein­kenni geta bent til krabba­meins og látum kíkja á okkur ef líðanin er önnur en venju­lega, hún er án skýrra or­saka og við­varandi. Ekki humma fram af þér heilsuna! Þekktu ein­kennin!“ skrifar Steinar að lokum.