Hörður Ágústsson, eða Höddi í Macland, er í stökustu vandræðum með að auglýsa drykkinn sinn, rúsínudrykkinn Club Mate sem slegið hefur í gegn í völdum kreðsum á samfélagsmiðlum. Höddi lýsir vandræðum sínum á Facebook hópnum Markaðsnördar þar sem hann biður um ráð.
„Hæ, ég er með umboðið fyrir Club Mate á Íslandi og hef síðustu 12 mánuði reynt að fá Facebook og Instagram til að leyfa mér að auglýsa vöruna á þeirra miðlum. Það hefur gengið brösuglega, vægast sagt.
Í stuttu máli þá heldur algorithmi Facebook að þessi mynd sé af bjór,“ segir Hörður.
„Eftir 20+ manual review, 2 símtöl og ótal samskipti í gegnum Facebook Chat þá er ég staddur þar að ég get enn ekki auglýst vöruna.
Ráðið sem Meta Concierge að nafni Adam gat gefið mér var að nota mynd af vörunni þar sem hún lítur ekki út eins og bjór í augum Facebook algorithmans. Ég er ekki að grínast.
Hann nefndi líka að þar sem algorithminn ræður og engin leið fyrir manneskju til að segja við kerfið : "Heyrðu hann Hörður er ekkert að selja bjór, þetta er bara gos" þá ætti ég að íhuga að sækja um leyfi til að selja vörur á Facebook sem innihalda áfengi. Sem er auðvitað rugl, en ég er til í að skoða allt.
Ég væri ofboðslega þakklátur ef einhver hér gæti leiðbeint mér hvað ég á að gera.“