Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir ljóst að COVID-19 heimsfaraldurinn komi til með að hafa mikil áhrif á íslenskt samfélag en að að það hafi í gegnum hremmingarnar sýnt úr hverju það er gert. „Við eigum sterkar grunnstoðir sem hafa sýnt ótrúlegan sveigjanleika á skömmum tíma við erfiðar aðstæður,“ skrifar Katrín í pistli Fréttablaðsins í dag.
Hún greinir frá því að skólar hafi umbreytt kennsluháttum, að félagslegir innviðir hafi þurft að bregðast við gerbreyttu ástandi, og að heilbrigðiskerfið hafi lyft grettistaki í baráttunni. „Sama hvert litið er; í skólum og heilbrigðisstofnunum, í verslunum og þjónustu, almenningssamgöngum og svo mætti lengi telja. Við eigum frumkvöðla sem hafa bylt starfsháttum á örskammri stund, hvort sem er í einkarekstri eða almannaþjónustu.“
„Við höfum sýnt samheldni, seiglu og sveigjanleika í þessum hremmingum og þeir eiginleikar munu verða til þess að íslenskt samfélag á alla möguleika á að koma öflugt sem aldrei fyrr út úr þessum stormi. Það höfum við gert áður og munum gera það aftur,“ segir Katrín enn fremur.
Víðtækar aðgerðir stjórnvalda sætt gagnrýni
Líkt og flestum ætti að vera kunnugt hefur kórónaveiran haft gífurleg áhrif á efnahagslíf landsins og stefnir atvinnuleysi í apríl í fimmtán prósent. Ferðaþjónustan glímir við gífurlega erfið vandamál þar sem lokað hefur verið á landamæri að miklu leyti og neyðast sum fyrirtæki jafn vel til að leggja niður sína starfsemi.
Annar aðgerðarpakki stjórnvalda til að bregðast við efnahagsáhrifum kórónaveirunnar var kynntar í vikunni og segir Katrín það vera markmið ríkisstjórnarinnar að tryggja lífsaðkomu fólks. Þá hefur hin svokallaða hlutastarfsleið verið farin, lán og styrkir veittir til fyrirtækja, gripið hefur verið til skattalega ráðstafana, boðið er upp á sumarnám og sumarstörf sköpuð fyrir námsmenn, auk þess sem ráðist hefur verið í aðgerðir fyrir viðkvæma hópa.
„Samanlagt eru þetta yfirgripsmiklar félagslegar aðgerðir sem yfirvöld grípa nú til. En það er líka mikilvægt að blása til sóknar,“ segir Katrín auk þess sem hún nefnir að ráðist verði í samgöngu- og byggingarframkvæmdir og að aukinn kraftur verði settur í rannsóknir, þróun og skapandi greinar.
Aðgerðarpakkar stjórnvalda hafa þó sætt töluverðri gagnrýni meðal fólks og halda því margir fram að stór hópur fólks verði undan, þá sérstaklega viðkvæmir hópar. Margt er því úr að bæta áður en næsti aðgerðarpakki verður kynntur.