Hjálmar boðar frekari upp­byggingu göngu- og hjóla­stíga

„Reykja­vík býr yfir miklum mögu­leikum til úti­vistar fyrir þá sem hér búa og þá sem hingað koma. Við skulum halda á­fram metnaðar­fullri upp­byggingu göngu- og hjóla­stíga,“ segir Hjálmar Sveins­son, borgar­full­trúi Sam­fylkingarinnar og full­trúi í skipu­lags- og sam­göngu­ráði.

Hjálmar boðar frekari upp­byggingu göngu- og hjóla­stíga í að­sendri grein í Frétta­blaðinu í dag. Hann segir magnað að sjá hvað hjól­reiða­fólki og þeim sem fara um á raf­skutlum hafi fjölgað mikið á götum og stígum borgarinnar undan­farin ár.

„Það er ekkert minna en al­gjör bylting. Fréttir berast af bið­röðum við hjóla­búðir. Þrátt fyrir rysj­ótt veður. Sama er uppi á teningnum í öðrum löndum. Ör þróun í smíði og fram­leiðslu raf­hjóla mun lík­lega fjölga þeim enn meir sem kjósa þennan farar­máta.“

Hjálmar vísar í græna planið sem sam­þykkt var í borgar­stjórn fyrir skömmu en þar er gert ráð fyrir al­gjörum for­gangi um­hverfis­vænna sam­göngu­máta næsta ára­tuginn í Reykja­vík.

„Undan­farin ár hefur verið gert stór­á­tak í lagningu hjóla­stíga í Reykja­vík. Ný hjól­reiða­á­ætlun til næstu fimm ára er nú í undir­búningi. Í hjól­reiða­á­ætlun 2015-2020 voru sett fram nokkur mælan­leg mark­mið. Eitt þeirra var að hlut­deild hjólandi í öllum ferðum í Reykja­vík yrði að minnsta kosti 6,5% árið 2020. Við höfum náð því. Árið 2017 var hlut­deild hjólandi 7%. Annað mark­mið sneri að lykil­fram­kvæmdum. Það má nefna brýr yfir Elliða­árnar og góðar hjóla­leiðir með fram Suður­lands­braut, Bú­staða­vegi og Kringlu­mýrar­braut. Í þriðja lagi hafa skilti með lituðum lykil­leiðum höfuð­borgar­svæðisins verið sett upp í Reykja­vík.“

Hjálmar segir að nýja hjól­reiða­á­ætlunin verði örugg­lega metnaðar­full hvað varðar lagningu stíga, hönnun gatna­móta og hlut­deild hjólandi. Þá segir hann að það gleymist stundum í um­ræðunni að Reykja­vík sé frá­bær úti­vistar­borg. Hann nefnir dæmi máli sínu til stuðnings.

„Fyrir nokkrum árum kynntist ég hópi af mara­þon­hlaupurum á sjö­tugs­aldri frá Sviss. Þau voru öll sam­mála um að það hefði verið ein­stök „náttúru­upp­lifun“ að hlaupa í Reykja­vík, alveg við sjóinn lengst af og svo inn í græna dali. Þau höfðu hlaupið 30 mara­þon í jafn­mörgum borgum síðast­liðin 30 ár. Samt var veðrið ekki sér­stakt þennan dag. Reykja­vík býr yfir miklum mögu­leikum til úti­vistar fyrir þá sem hér búa og þá sem hingað koma. Við skulum halda á­fram metnaðar­fullri upp­byggingu göngu- og hjóla­stíga.“