„Reykjavík býr yfir miklum möguleikum til útivistar fyrir þá sem hér búa og þá sem hingað koma. Við skulum halda áfram metnaðarfullri uppbyggingu göngu- og hjólastíga,“ segir Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og fulltrúi í skipulags- og samgönguráði.
Hjálmar boðar frekari uppbyggingu göngu- og hjólastíga í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag. Hann segir magnað að sjá hvað hjólreiðafólki og þeim sem fara um á rafskutlum hafi fjölgað mikið á götum og stígum borgarinnar undanfarin ár.
„Það er ekkert minna en algjör bylting. Fréttir berast af biðröðum við hjólabúðir. Þrátt fyrir rysjótt veður. Sama er uppi á teningnum í öðrum löndum. Ör þróun í smíði og framleiðslu rafhjóla mun líklega fjölga þeim enn meir sem kjósa þennan fararmáta.“
Hjálmar vísar í græna planið sem samþykkt var í borgarstjórn fyrir skömmu en þar er gert ráð fyrir algjörum forgangi umhverfisvænna samgöngumáta næsta áratuginn í Reykjavík.
„Undanfarin ár hefur verið gert stórátak í lagningu hjólastíga í Reykjavík. Ný hjólreiðaáætlun til næstu fimm ára er nú í undirbúningi. Í hjólreiðaáætlun 2015-2020 voru sett fram nokkur mælanleg markmið. Eitt þeirra var að hlutdeild hjólandi í öllum ferðum í Reykjavík yrði að minnsta kosti 6,5% árið 2020. Við höfum náð því. Árið 2017 var hlutdeild hjólandi 7%. Annað markmið sneri að lykilframkvæmdum. Það má nefna brýr yfir Elliðaárnar og góðar hjólaleiðir með fram Suðurlandsbraut, Bústaðavegi og Kringlumýrarbraut. Í þriðja lagi hafa skilti með lituðum lykilleiðum höfuðborgarsvæðisins verið sett upp í Reykjavík.“
Hjálmar segir að nýja hjólreiðaáætlunin verði örugglega metnaðarfull hvað varðar lagningu stíga, hönnun gatnamóta og hlutdeild hjólandi. Þá segir hann að það gleymist stundum í umræðunni að Reykjavík sé frábær útivistarborg. Hann nefnir dæmi máli sínu til stuðnings.
„Fyrir nokkrum árum kynntist ég hópi af maraþonhlaupurum á sjötugsaldri frá Sviss. Þau voru öll sammála um að það hefði verið einstök „náttúruupplifun“ að hlaupa í Reykjavík, alveg við sjóinn lengst af og svo inn í græna dali. Þau höfðu hlaupið 30 maraþon í jafnmörgum borgum síðastliðin 30 ár. Samt var veðrið ekki sérstakt þennan dag. Reykjavík býr yfir miklum möguleikum til útivistar fyrir þá sem hér búa og þá sem hingað koma. Við skulum halda áfram metnaðarfullri uppbyggingu göngu- og hjólastíga.“