„Það skal alveg viðurkennast, maður hefur oft átt betra mót en að bjóða upp á þessa norsku Match þætti,“ segir Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri RÚV.
Skarphéðinn svaraði býsna harðri gagnrýni Helga Snæs Sigurðssonar, blaðamanns Morgunblaðsins, sem birtist á síðum blaðsins í gær. Þar gagnrýni Helgi val RÚV á nokkrum erlendum sjónvarpsþáttum og þá sérstaklega skandinavískum þáttum.
„RÚV stendur sig almennt séð vel þegar kemur að vali á erlendum sjónvarpsþáttum en nokkrir eru svo slakir og leiðinlegir að furðu sætir að þeir séu á dagskrá,“ sagði Helgi í gagnrýni sinni og bætti við að stundum virtist lítil gæðasía vera á efni. Helgi nefndi sérstaklega norska þáttinn Match.
„Ég leyfi mér að efast um að nokkrum manni þyki þeir fyndnir. Í þáttunum er atburðum í lífi ungs manns lýst eins og íþróttaviðburði. Tveir jakkafataklæddir menn sjá um lýsinguna líkt og um fótboltaleik væri að ræða. Þessi hugmynd er í besta falli skondin sem stutt innslag í gamanþætti en að gera heila þáttaröð út frá henni og hvað þá tvær, líkt og raunin er, er algjörlega galið! Ég minnist þess varla að hafa séð jafnleiðinlega þætti áður í ríkissjónvarpinu,“ sagði Helgi.
Skarphéðinn tekur að vissu leyti undir þessa gagnrýni, að minnsta kosti hvað varðar Match, í færslu á Facebook-síðu sinni. „Reyndin varð sú að eftir glæsimark í fyrsta þætti þá var einfaldlega of oft og eiginlega alltaf reynt við sama hornið- og því fór sem fór, engin mörk, allt varið. Suma leiki sem byrja vel vinnur maður og öðrum tapar maður. Þannig er nú það - og verður.“
Helgi sagði að danska þáttaröðin Bonderöven, eða Basl er búskapur, kæmist nálægt þeirri norsku í leiðindum. „Hún fjallar um par sem ákvað að einfalda líf sitt og hefja búskap. Er svo fylgst með hinum ýmsu bústörfum, þátt eftir þátt, sem er álíka skemmtilegt og að horfa á málningu þorna.“
Skarphéðinn var ekki alveg tilbúinn að taka undir gagnrýni Helga á Bonderöven. „En hafandi sagt það Helgi Snær þá tek ég hér með upp hanskann og hrífuna fyrir dugnaðarforkinn Frank og baslið hans í búskapnum. Hann er kannski ekki allra. Ekki frekar en bústörfin almennt. En þeir sem kunna að meta, þeir unna þessum þáttum heitt og segja af innlifun “I love it!”.“