Helgi Áss kemur fimmmenningunum til varnar: „Orðspor þeirra hefur dvínað“

Mál fimmmenninganna hefur verið í kastljósinu að undanförnu vegna ásakana um kynferðisbrot gegn Vítaliu Lazareva. Hafa margir gagnrýnt framgöngu þeirra harðlega en tveir þeirra hafa neitað ásökunum um brot.

Helgi Áss Grétarsson lögfræðingur kemur þeim til varnar í umræðunni í grein á Vísi í dag og segir hann að þeir hafi misst spón úr aski sínum. Skal tekið fram að Helgi Áss er alls ekki að halda því fram að kynferðisbrot séu réttlætanleg. „Orðspor þeirra hefur dvínað, atvinnumissir orðið og ætla má að einkalíf þeirra hafi orðið fyrir hnjaski.“

Helgi Áss hefur tekið saman orð prófessors um að málið sé eitt það mikilvægasta er varðar stöðu karla og kvenna í áratugi og orð Drífu Snædal, forseta ASÍ, um aðdáun hennar á þolendum sem stíga fram.

„Þegar einn fimmmenninganna lýsti því yfir að ekkert væri fjær sér „en að þröngva annarri manneskju til kynferðislegra athafna“ brást einn aðstandenda Öfga við með því að telja slíka neitun „bakslag“, líkt og einn kynja- og fjölbreytileikafræðingur hafði gert í einum Kastljósþætti RÚV,“ segir Helgi Áss.

Hann segir svo:

„Áðurnefndir fimmmenningar eru taldir saklausir uns sekt er sönnuð, sbr. reglu þess efnis í stjórnarskránni. Eigi að síður kann þorri almennings að meta þá seka.“

Vill hann að við gefum okkur að þeir séu sekir: „. Skiptir þá sá sannleikur meira máli en að komist sé að slíkri niðurstöðu á grundvelli takmarkaðra sönnunargagna og að útdeiling „refsikenndra viðurlaga“ sé hvorki í höndum dómstóla né annarra stofnana refsivörslukerfisins? Með öðrum orðum, eiga einhliða frásagnir í samfélagsmiðlum, studdar eftir atvikum gögnum sem aflað hefur verið einhliða, að duga til að sá sem borinn er sökum sé sviptur mannorði og atvinnutækifærum?“

Hann segir engar töfralausnir til í þessum málum: „Sú lausn að láta dómstól götunnar um verkið er ekki heillavænleg. Þangað er samt förinni heitið.“