Óhætt er að segja að það andi köldu á milli tveggja sterkustu manna heims, Hafþórs Júlíusar Björnssonar og Englendingsins Eddie Hall.
Eins og kunnugt er mætast þeir Eddie og Hafþór í boxhringnum í Las Vegas í september á næsta ári og eru báðir byrjaðir að undirbúa sig af kappi fyrir bardagann.
Hafþór hefur sakað Hall um svindl í keppninni um sterkasta mann heims árið 2017. Eddi sárnaði það mjög og sagði ásakanirnar hafi varpað dökkum skugga á sigur hans. Þá er skemmst að minnast þess þegar Hafþór sló heimsmet Hall í réttstöðulyftu með því að lyfta 501 kílói en met Halls var 500 kíló. Sendi Hafþór skýr skilaboð til Halls í kjölfarið: „Eddie, ég er búinn að slá metið þitt og ég er tilbúinn að slá þig í rot í hringnum.“
Eddie Hall var í viðtali við vefinn The Mac Life í vikunni þar sem hann ræddi þann mikla ríg sem er á milli þeirra. „Við höfum átt í harðri samkeppni mjög lengi. Hatrið á milli okkar er 100% raunverulegt. Ef ég myndi rekast á Hafþór á förnum vegi þá þyrfti ég að hafa fyrir því að kýla hann ekki í andlitið.“
Hann segir að þegar hugmyndin um boxbardagann kom upp hafi hann strax fallist á hana. „Þar fæ ég tækifæri til að jafna um sakirnar við hann og fæ pening í leiðinni. Þetta er win-win.“
Eddie Hall er býsna sigurviss ef marka má viðtalið.
„Ég veit að ég mun vinna því ég mun gefa allt sem ég á. Þegar ég hef sjálfstraust ertu í vondum málum,“ segir hann og bætir við að Hafþór Júlíus sé ef til vill sigurviss þar sem hann er töluvert stærri en Eddie. Segir Eddie að ef svo er séu það mikil mistök hjá Hafþóri. Hann sendir honum svo skýr skilaboð: „Hafþór, þetta eru skilaboðin til þín. Þú ert búinn að vera. Ég sé þig í september 2021 og ætla að pakka þér saman.“