Halldór segir meðallaun olíubílstjóra um 900 þúsund: „Það fer ekki saman hljóð og mynd“

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að meðalheildarlaun bílstjóra í olíudreifingu hafi verið 893 þúsund krónur árið 2022. Til samanburðar voru 70% fullvinnandi á almennum vinnumarkaði árið 2021 með lægri mánaðarlaun en 858 þúsund krónur.

Morgunblaðið greinir frá þessu í dag en eins og kunnugt er hafa verkföll verið boðuð hjá olíubílstjórum í Eflingu. Halldór segir að um sé að ræða hálaunahóp og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, tekið að sér að vera í brjóstvörn þessa hóps fyrir meiri hækkunum en annað launafólk fær í landinu.

„Í viðtali við trúnaðarmann olíubílstjóra í fjölmiðlum kom fram að þeir væru bara að fara fram á 670 króna hækkun á tímann. Það jafngildir um 30% hækkun launa til viðbótar við 10% hækkun 2022. Bara dagvinnulaun bílstjóranna eiga að hækka um 120 þúsund krónur á mánuði, sem er nærri tvöfalt meiri hækkun en Efling krefst fyrir þernur á hótelum. Og nú greiða olíubílstjórar atkvæði um verkfall til að fylgja eftir viðbótarkröfum sem aldrei hafa verið kynntar SA, einungis kynntar í fjölmiðlum,“ segir Halldór við Morgunblaðið og bætir við að Efling sigli undir fölsku flaggi í sinni kjarabaráttu. Á undanförnum árum hafi Efling í kjaradeilum eingöngu sagst leggja áherslu á hækkun launa í láglaunastörfum.

„Það fer ekki saman hljóð og mynd,“ segir Halldór sem á von á að verkfall olíubílstjóra hafi áhrif á daglegt líf allra í landinu. „Efling ætlar sér þannig að valda öllu samfélaginu gríðarlegum skaða til þess að berjast fyrir kjörum karla með há laun í íslensku samhengi.“