„Gjafabréf til að ferðast innanlands! Eruð þið að grínast? Þetta verður ekki stuðningur við fólk,“ segir Gunnar Smári Egilsson, fjölmiðlamaður og einn af stofnendum Sósíalistaflokksins.
Ríkisstjórnin kynnti í gær aðgerðapakka vegna efnahagsáhrifa COVID-19 faraldursins hér á landi. Aðgerðirnar eru margvíslegar en einn anginn snýr að hvatningu til ferðalaga innanlands.
Samkvæmt því sem fram kom á fundinum munu allir íbúar Íslands, 18 ára og eldri, fá stafrænt gjafabréf frá stjórnvöldum. Áætlað er að kostnaður við stafrænu gjafabréfin muni nema 1,5 milljörðum króna. Útfærslan er þó í vinnslu í samvinnu við heildarsamtök ferðaþjónustufyrirtækja.
Gunnari Smára þykir lítið til áætlunar ríkisstjórnarinnar koma og segir ljóst að þær munu fyrst og fremst nýtast fyrirtækja- og fjármagnseigendum. Um rafrænu gjafabréfin segir hann:
„Ég spái að þetta sé planið: Vegna minni eftirspurnar fellur verð á hótelherbergi úr 20 þús. kr. á mánuði í 10 þús. kr. Ríkið mun þá senda út afsláttarmiða, þannig að hótelið heldur áfram að rukka 20 þús. kr. en gestirnir borga með 10 þús. kr. greiðslu og svo 10 þús. kr. inneign. Almenningur er því í nákvæmlega sömu stöðu en ríkið styrkir hótelið til að halda uppi sama verði og var þegar það var fullbókað. Það er miklu nær að lánardrottnar sjái um þessa aðlögun að breyttum markaðsaðstæðum, taki á sig tap vegna tapaðra lána svo fyrirtækin geti staðist í verri markaðsaðstæðum,“ segir hann í pistli á Facebook-síðu sinni.
Þá bendir hann á að gert sé ráð fyrir einum og hálfum milljarði króna í kostnað við þetta, eða rúmar fimm þúsund krónur á hvern landsmann yfir 18 ára. Hann segir að þeir sem fátækir eru hafi engan kost á að keyra hringinn í kringum landið til að sækja afsláttinn sinn. „Eins og með séreignasparnaðinn er þetta ójafnaðaraðgerð.“
Margir hafa tjáð sig um aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar og sitt sýnist hverjum. Karl Garðarsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins og framkvæmdastjóri Frjálsrar fjölmiðlunar, veltir upphæðinni sem verja á í gjafabréfin einnig fyrir sér.
„Margar fínar hugmyndir hjá ríkisstjórninni til að styðja við almenning og atvinnulíf á fordæmalausum tímum. Staldraði þó aðeins fjármagnið sem sett er í gjafabréf til Íslendinga, sem hvetja á til ferðalaga innanlands. Sýnist þetta rétt duga rúmlega fyrir hamborgara, frönskum og kók í íslenskri vegasjoppu. Veit ekki hvort það dugar til að fá mig til að fara hringinn.“