Gunnar Smári um styttuna af Ingólfi: „Nokkurn veginn síðasta sort af mann­gerpi“

Gunnar Smári Egils­son, fjöl­miðla­maður og stofnandi Sósíal­ista­flokksins, veltir fyrir sér hvort Ís­lendingar eigi að hampa Ingólfi Arnar­syni mikið lengur. Gunnar Smári segist velta þessu fyrir sér nú þegar þjóðir heims eru að fella styttur af þræla­sölum og þræla­höldurum.

Styttan af Ingólfi stendur á Arnar­hóli en hún var hönnuð af mynd­höggvaranum Einari Jóns­syni. Hún var af­hjúpuð árið 1924 og hefur því staðið í tæp hundrað ár. Ingólfur er sem kunnugt er talinn fyrsti land­náms­maður Ís­lands og nam hann hér land í kringum árið 870 að talið er.

Gunnar Smári segir í færslu á Face­book-síðu sinni að Ingólfur hafi bælt niður með of­beldi fyrstu al­þýðu­upp­reisn Ís­lands­sögunnar þegar hann myrti frelsis­hetjurnar Duf­þak og Helga í Vest­manna­eyjum, þræla sem höfðu gert upp­reisn gegn kúgara sínum Hjör­leifi.

„Ingólfur hafði líkt og Hjör­leifur keypt sér þræla og einnig rænt fólki og hneppt í þræl­dóm, sem sagt nokkurn veginn síðasta sort af mann­gerpi,“ segir Gunnar Smári og bætir við - innan sviga – að ekki sé til ein saga af mennsku Ingólfs, að­eins ó­mennsku.

„Vífill og Karli voru meðal þræla Ingólfs. Ef fólk vill ekki setja Duf­þak upp á stall Ingólfs á Arnar­hóli, mætti setja þar styttu af Karla eða Vífli sem tákn­myndum hinnar kúguðu al­þýðu í aldanna rás, þræla og vinnu­fólks. Nú eða vatns­berann hans Ás­mundar sem nú er neðst í Bakara­brekkunni,“ segir Gunnar Smári.

Fjöl­margar at­huga­semdir hafa verið skrifaðar við færsluna og sitt sýnist hverjum. Einn leggur til að styttan fái að vera á­fram en stytta af Duf­þaki verði sett á góðan stað.

Örn Úlfar Sæ­vars­son, texta­smiður og fyrr­verandi spurninga­höfundur Gettu betur, spyr á móti hvort ekki sé lík­legt að þeir þrælar sem Gunnar Smári nefnir hafi sjálfir átt þræla á ein­hverjum tíma­punkti. Því svarar Gunnar Smári:

„Humm, eins og að benda á að þræla­hald hafi verið í Afríku í tengslum við stöðu svartra í US. Þetta snýst ekki kyn­þátta- eða þjóð­ernis­hyggju heldur þræla­hald. Þrællinn er jafn­mikill þræll þótt þræla­hald sé stundað þaðan sem hann er ættaður.“

Gunnar Smári segir að það vanti raunar kafla í Ís­lands­söguna um ör­lög fyrrum þræla hér á landi á öldum áður. Einn veltir fyrir sér hvort þræla­hald hér á landi hafi mögu­lega verið með öðrum hætti en er­lendis og þrælarnir kannski ekki verið jafn miklir þrælar og ætla mætti. Því svarar Gunnar Smári: „Já, má vera að við höfum haft besta þræla­kerfi í heimi eins og besta kvóta­kerfið, besta líf­eyris­sjóða­kerfið, besta sótt­varnar­kerfið og allt það.“