Gunnar Rúnar meinað að mæta í vinnu hjá Hafnar­fjarðar­bæ

Gunnari Rúnari Sigur­þórs­syni, sem dæmdur var í 16 ára fangelsi fyrir morð, var á dögunum til­kynnt að hann mætti ekki mæta aftur til vinnu hjá Hafnar­fjarðar­bæ eftir að hafa unnið þar í þrjá daga. Þetta kemur fram í frétt Vísir.is um málið.

Í sam­tali við Vísi segir for­maður fé­lags fanga Hafnar­fjarða­bæ fara fram með for­dómum og út­skúfun. Gunnar Rúnar var dæmdur í 16 ára fangelsi árið 2011 fyrir morðið á Hannesi Þór Helga­syni. Hann sat inni þar til í fyrra þegar hann fór á á­fanga­heimilið Vernd. Eitt af skil­yrðum þess að fá að vera á Vernd og af­plána utan fangelsis er að vera í vinnu eða námi.

Guð­mundur Ingi Þór­odds­son, for­maður fé­lags fanga, segir í sam­tali við Vísi að það hafa gengið mjög erfið­lega fyrir Gunnar Rúnar að fá vinnu og hefur hann verið í sjálf­boða­liða­vinnu og þegið fjár­hags­að­stoð hjá Hafnar­fjarðar­bæ.

„Þetta er samt maður sem vill taka þátt í sam­fé­laginu og koma betur út og byrja að borga skatta og ná að lifa og vera góður sam­fé­lags­þegn. Hann fékk tæki­færi til þess hjá Hafnar­fjarðar­bæ í síðustu viku en hann var búin að vinna í þrjá daga þegar honum var sagt upp,“ segir Guð­mundur Ingi.

Rósa Guð­bjarts­dóttir, bæjar­stjóri Hafnar­fjarðar, segist ekki geta geta tjáð sig um málið en að það sé til skoðunar innan bæjar­kerfisins.