Gunnari Rúnari Sigurþórssyni, sem dæmdur var í 16 ára fangelsi fyrir morð, var á dögunum tilkynnt að hann mætti ekki mæta aftur til vinnu hjá Hafnarfjarðarbæ eftir að hafa unnið þar í þrjá daga. Þetta kemur fram í frétt Vísir.is um málið.
Í samtali við Vísi segir formaður félags fanga Hafnarfjarðabæ fara fram með fordómum og útskúfun. Gunnar Rúnar var dæmdur í 16 ára fangelsi árið 2011 fyrir morðið á Hannesi Þór Helgasyni. Hann sat inni þar til í fyrra þegar hann fór á áfangaheimilið Vernd. Eitt af skilyrðum þess að fá að vera á Vernd og afplána utan fangelsis er að vera í vinnu eða námi.
Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður félags fanga, segir í samtali við Vísi að það hafa gengið mjög erfiðlega fyrir Gunnar Rúnar að fá vinnu og hefur hann verið í sjálfboðaliðavinnu og þegið fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ.
„Þetta er samt maður sem vill taka þátt í samfélaginu og koma betur út og byrja að borga skatta og ná að lifa og vera góður samfélagsþegn. Hann fékk tækifæri til þess hjá Hafnarfjarðarbæ í síðustu viku en hann var búin að vinna í þrjá daga þegar honum var sagt upp,“ segir Guðmundur Ingi.
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, segist ekki geta geta tjáð sig um málið en að það sé til skoðunar innan bæjarkerfisins.