Tónlistarkonan Guðný María Arnþórsdóttir fékk góðar fréttir á dögunum eftir að hafa fengið síðasta lyfjaskammtinn vegna krabbameins sem hún glímir við.
Guðný María, sem glatt hefur landsmenn í gegnum tíðina með lögum sínum á YouTube, segir fylgjendum sínum á Facebook frá þessu og vísar í orð frá lækninum sínum.
„Þetta voru nú ALVÖRU krabbameinslyf sem við gáfum þér, en það er ekki að sjá á líkama þínum" sagði Brynjar læknir brosandi við mig, eftir áttunda og síðasta lyfjakúrinn sem hann hann gaf mér á nýju ári og eftir rannsókn á líkamsástandi mínu.“
Guðný segir að krabbinn sé núna 2% í blóðinu og verði það trúlega alltaf, jafnvel þegar hún verður 121 árs.
„Þess vegna er þetta krabbamein sagt ólæknandi, en blóð mitt verður rannsakað reglulega.“
Guðnýju er þakklæti efst í huga þessa dagana. Hún greindist með beinmergskrabbamein í fyrrasumar en hefur ávallt verið staðráðin í að lifa sem lengst. Stuttu eftir greininguna á síðasta ári sagðist hún ætla að verða allavega 120 ára.
„Ég er ótrúlega þakklát hvort sem ég ætti að þakka þér, lífsháttum mínum eða sterkum genum. Núna eykst þrek mitt og þol á hverjum degi, ég gat farið tvo daga í röð í ræktina í vikunni sem ég var löngu hætt að geta. Dansa og hleyp eins og vindurinn, þetta verður skemmtilegasta árið í lífinu mínu,“ segir Guðný María sem er þekkt fyrir smitandi jákvæðni sína.