„Ef þú ert hérna inni þá langar mig bara að þakka þér svo innilega fyrir að hafa spáð í honum í stað fyrir að keyra framhjá honum,“ segir kona ein í Facebook-hópi Grafarvogsbúa.
Konan lýsti í gærkvöldi eftir konu sem fann son hennar þar sem hann var ráfandi einn í Grafarvoginum um klukkan 18 í gær og hjálpaði honum að komast heim til sín.
„Mig langar að fá að þakka þér fyrir að vera svona góðhjörtuð yndisleg kona,“ segir hún og er augljóslega mjög þakklát.
Ekki liggur fyrir hvort konan hafi fundist eða gefið sig fram en ljóst er að íbúar eru ánægðir með afskipti konunnar af barninu.
„Yndislegt þegar fólk ber umhyggju fyrir náunganum, börnum eða fullorðnum. Er það ekki bara besta leiðin til að bæta samfélag fólks?,“ segir í einni athugasemd.