Grunnt á því góða milli Björns Levís og Brynjars: „Hversu oft fórstu bara á barinn og slepptir fundi?“

Óhætt er að segja að grunnt hafi verið á því góða á milli Björns Levís Gunnarssonar, þingmanns Pírata, og Brynjars Níelssonar, fyrrverandi þingmanns Sjálfstæðisflokksins og aðstoðarmanns dómsmálaráðherra, að undanförnu.

Brynjar skrifaði pistil á Facebook um helgina þar sem hann, einu sinni sem oftar, hjólaði í Pírata.

„Nú er svo komið að ég fer í taugarnar á sífellt fleira fólki. Sennilega stutt í það að ég verði einstæðingur búandi í bakhúsi á Grettisgötu. Meira að segja Björn Leví, sem ég hélt að elskaði mig, er um það bil að bugast. Hann kemur gjarnan á fésbókarvegginn minn og kvartar yfir að ég uppnefni menn listaspírur, gáfnaljós, skattakónga og þar eftir götunum. Ég hélt að þetta væru bara góð nafnorð sem væru lýsandi fyrir viðkomandi og síður en svo niðrandi.“

Björn Leví var ekki lengi að koma augu á færslu Brynjars og beindi ákveðnum spurningum til hans.

„Hæ Brynjar. Þegar þú hefur farið erlendis sem þingmaður, hefur þér einhvern tímann verið boðið í mat, Til dæmis greitt fyrir þig hótel með morgunmat? Í þau skipti, endurgreiddir þú þann hluta dagpeninganna sem þingið greiddi þér?“

Brynjar svaraði að bragði:

„Það býður enginn svona leiðinlegum manni í mat eða annað. Svo var ég lítið að fara til útlanda að óþörfu, ólíkt ykkur pírötum eða kalla inn í gríð og erg varamenn með tilheyrandi kostnaði fyrir skattgreiðendur.“

Björn Leví svaraði Brynjari með annarri spurningu:

„Hversu oft fórstu bara á barinn og slepptir fundi?“

Brynjar svaraði svona:

„Ég fór oft á barinn og sleppti ekki fundi nema hann væri ónauðsynlegur.“

Björn Leví var ekki ánægður með svar Brynjars.

„Annar útúrsnúningur. Það er ákveðin upphæð greidd í dagpeningum fyrir hverja máltíð. Þannig að ef þú færð þá máltíð gefins áttu að skila þeim hluta dagpeninganna.“

Hann bætti svo við svar sitt nokkru síðar:

„Hvernig vissir þú að fundurinn var ónauðsynlegur ef þú mættir ekki á hann? Að því sögðu þá býst ég svo sem ekki við að þú hefðir á nokkurn hátt gert neinn fund nauðsynlegri með viðveru þinni. En það er svo sem bara mín skoðun.“