Grímur birtir sturlaða staðreynd um stýrivexti á Íslandi – Sjáðu myndina

„Þetta er staðan. Þetta er hagstjórnin. Þetta er krónan. Við erum samfélag sem hentar best þeim sem eiga rosalega mikið af peningum og geta gert upp í evrum en borga síðan laun í krónum.“

Þetta segir Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar og fyrrverandi bæjarstjóri Bolungarvíkur, í færslu á Facebook-síðu sinni.

Þar gerir hann stýrivaxtahækkun peningastefnunefndar Seðlabankans að umtalsefni, en eins og kunnugt er voru stýrivextir hækkaðir um eitt prósent í morgun. Eru stýrivextir því komnir í 7,5 prósent og hafa þeir hækkað tífalt frá því í maí 2021 þegar þeir voru 0,75 prósent.

Grímur birtir svo býsna athyglisverða mynd þar sem stýrivextir á Íslandi eru bornir saman við stýrivexti á öðrum Norðurlöndum. Munurinn er í raun sláandi og sker Ísland sig rækilega úr þegar kemur að háum stýrivöxtum. Í Svíþjóð eru þeir 3,0%, í Danmörku 2,6%, í Noregi 2,75% og í Finnlandi 3,5%. Á Íslandi eru þeir aftur á móti 7,5% sem kemur heimilum landsins afar illa.

„Að stýrivextir séu hér 114% til 188% hærri en á hinum Norðurlöndunum er auðvitað algjörlega óviðunandi. Hér er hæsta hlutfall þeirra sem búa í eigin húsnæði sem þýðir líka að hér er hæsta hlutfall þeirra sem skulda mikið og því hefur svona staða gríðarleg áhrif á efnahag þeirra,“ segir Grímur sem varpar svo fram milljón dollara spurningunni:

„Hvers vegna má ekki ræða hina afleitu hugmynd íslensku krónuna í þaula? Hvers vegna er Evrópusambandsaðild ekki rædd í þaula?“

Samanburðinn má sjá á myndinni hér að neðan: